Japönsk kakkalakkamynd fékk endurgreiðslu á kostnaði en ekki Kórar Íslands

Framleiðslufyrirtækið Sagafilm fær ekki 25 prósent af kostnaði við framleiðslu á þáttunum Kórar Íslands endurgreiddan. Ástæðan er sú að þættirnir þóttu ekki nógu menningarlegir. Þættirnir Biggest Loser fengu umrædda endurgreiðslu og bandaríska hasarmyndin The Fate of the Furious. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Kvikmyndamiðstöð Íslands hefur umsjón með endurgreiðslukerfi kvikmynda. Hægt er að fá 25 prósent af framleiðslukostnaði kvikmyndar eða sjónvarpsefnis endurgreiddan en bæði innlendir og erlendir aðilar geta sótt um endurgreiðslu.

Í Fréttablaðinu kemur fram að Kórar Íslands hafi ekki náð að uppfylla skilyrði um endurgreiðslu en á meðal þess sem kom í veg fyrir það er að ekki var vísað í sögupersónu eða einstakling úr íslenskum menningar arfi, sögu úr samfélaginu eða trúarbrögðum. Þá er söguþráður þáttanna ekki byggður á bókmenntaverki, ekki er vísað í viðfangsefni líðandi stundar og mikilvægt gildi kóranna kom ekki fram í framleiðslu þáttanna.

Biggest Loser og The Fate of the Furious uppfylltu nægilega mörg skilyrði til að fá endurgreiðsluna. Þá benti Hilmar Sigurðsson, forstjóri Sagafilm, á í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að japanska kakkalakkamyndin Terra Formars hafi fengið endurgreiðslu. „Okkur finnst svolítið sérstakt að þessir þættir passi ekki inn í endurgreiðslukerfið.“

Fréttablaðið greinir frá því að Sagafilm hafi kært niðurstöðuna en gert var ráð fyrir endurgreiðslunni þegar ákveðið var að gera þáttaröðina sem var sýnd á Stöð 2 í vetur.

Auglýsing

læk

Instagram