Katrín Tanja tileinkaði ömmu sinni sigurinn á heimsleikunum: „Þetta er fyrir þig“

Katrín Tanja Davíðsdóttir varð heimsmeistari í CrossFit, annað árið í röð í gærkvöldi. Þau sem fylgdust með keppninni sáu að sigurinn var afar tilfinningaríkur fyrir Katrínu sem birti þessa mynd á Instagram í gær:

Á myndinni sést amma Katrínar, Hervör Jónasdóttir, hvetja hana áfram í keppni á Íslandi. Hervör lést í apríl á þessu ári og í textanum með myndinni sést að frammistaða Katrínar á heimsleikunum í Kaliforníu var ömmu hennar til heiðurs.

Þetta er fyrir þig. Saman, að eilífu og alltaf.

Katrín Tanja bjó hjá ömmu sinni og afa frá því að hún hóf nám í framhaldsskóla. Hún flutti til Bost­on í janú­ar á þessu ári til þess að geta æft með þjálf­ara sín­um og til að geta einbeitt sér að fullu að CrossFit.

„Ég get æft vel sjálf en það er herslumun­ur að vera með þjálf­ara á svæðinu og mér finnst ég alltaf bæta mig svo ótrú­lega á æf­ing­um með hon­um, hver dag­ur er al­veg 100%,“ sagði hún í samtali við mbl.is fyrr á þessu ári.

Katrín Tanja var í nærmynd í Íslandi í dag eftir sigurinn á heimsleikunum í CrossFit í fyrra og sagði þá frá sambúðinni með ömmu sinni og afa í Reykjavík. „Þau styðja mig rosalega vel í þessu,“ sagði hún en amma hennar var þekkt fyrir að láta í sér heyra þegar Katrín var að keppa.

„Amma mín er þekkt fyrir að vera háværust á pöllunum. Það heyrist hæst í henni. Þegar ég vann fyrsta Íslandsmeistaratitilinn þá var viðtal við hana í kvöldfréttunum, ekki mig.“

Hervör, amma Katrínar, sagði þau njóta þess að hafa hana hjá sér. „Hún hefur alla tíð verið þvílíkur gleðigjafi fyrir alla í fjölskyldunni,“ sagði hún í nærmyndinni. „Við erum óendanlega stolt af henni. Þetta hefur kostað blóð, svita og tár.“

Auglýsing

læk

Instagram