Leitar að eiganda titrara sem fannst í sófa í Flensborg: „Ég er ekki enn viss um hvað þetta er“

Þorbjörn Rúnarsson, tenór og áfangastjóri í Flensborg, birti mynd af dularfullum óskilamun á Facebook í morgun. Þar óskar hann eftir upplýsingum um tækið sem hann segir að passi ágætlega í lófa og titri eftir ákveðnu mynstri.

„Hjálp! Hér er óskilamunur úr matsal Flensborgar. Getur einhver sagt mér hvað þetta er? Sé ýtt á einhvern þessara takka, titrar tækið eftir ákveðnu mynstri (annars vegar laaaangt, stutt og hins vegar laaaangt, stutt, stutt, stutt, miðtakkinn hefur enga virkni). Þetta passar ágætlega í lófa,“ segir í færslunni.

Færslan vakti mikla kátínu og giskuðu lesendur bæði á nautnaegg og titrara.

Í samtali við Nútímann segist Þorbjörn hafa fengið að heyra ýmsar kenningar um tækið.

Systir mín heldur því fram að þetta sé titrari en ég er enn ekki viss um hvað þetta er.

Hann segir að ræstingafólk skólans hafi fundið tækið í sófa í skólanum í síðustu viku. Eigandi þess hefur ekki enn gefið sig fram og telur Þorbjörn hugsanlegt að sá sé búinn að endurnýja tækið.

„Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki farið um skólann og athugað hvort einhver bregðist við. Ég hef af og til ýtt á takkann og vonandi verið að gleðja einhvern,“ segir Þorbjörn.

Hann segir að þegar búið verði að hreina óskilamuninn með spritti verði hann geymdur með öðrum týndum hlutum. Þar sem þetta er jú, ósköp eðlilegur hlutur.

Auglýsing

læk

Instagram