Lögregla leitar ökumanns sem ók rakleiðis af vettvangi eftir bílslys

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar ökumanns silfurlitaðrar Audi fólksbifreiðar, sem lenti í árekstri við ljósgráan Peugeot á Reykjanesbraut í Hvassahrauni skömmu fyrir miðnætti í gærkvöldi.

Umferðaróhappið var tilkynnt til lögreglu klukkan 23.47. Peugot bifreiðin er mikið skemmd. Henni var ekið vestur Reykjanesbraut þegar áreksturinn varð og hún hafnaði utan vegar.

Tveir einstaklingar voru í bílnum og voru báðir fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Ökumaður Audi bifreiðarinnar ók rakleiðis af vettvangi en talið er að ökutækið sé með evrópskt bílnúmer.

Þeir sem búa yfir vitneskju um silfurlitaða Audi bílinn og ökumann hans eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið helgig@lrh.is eða í einkaskilaboðum á Facebook síðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en lögreglan hvetur jafnframt ökumanninn til að gefa sig fram.

 

Auglýsing

læk

Instagram