Pylsurnar kláruðust ekki í Staðarskála

Pylsurnar kláruðust ekki í Staðarskála í nótt þrátt fyrir að á milli 3-400 manns hafi verið veðurteppt í Hrútafirðinum. Holtavörðuheiðin var lokuð og tveir ráðherrar voru á meðal þeirra sem sátu fastir.

Snorri Hallgrímsson í Staðarskála segir í samtali við Nútímann að pylsurnar sem seldust í nótt hafi ekki verið taldar, en nóg hafi verið til. „Til samanburðar þá seljast um 600 pylsur á góðum nýársdegi. Okkur bregður ekkert þó við sjáum fólk hérna,“ segir hann.

Snorri segir góða stemningu hafa verið í Staðarskála og að salan á bjór hafi verið góð, þó hann hafi ekki klárast.

Samkvæmt björgunarsveitum gistu um 340 manns á opinberum stöðum í Hrútafirði og eflaust fleiri í heimahúsum.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra voru á meðal þeirra sem voru veðurtepptir í Staðarskála. Ljóst er að meiri völd hafa sjaldan verið föst í Hrútafirðinum. „Veðrið spyr ekkert hverjir eru á ferð,“ segir Snorri.

Illugi segir í samtali við mbl.is að hann hafi komið ásamt föruneyti þegar nýbúið var að loka heiðinni:

Þegar við keyrðum þar yfir í morg­un prísuðum við okk­ur sæla að hafa ekki farið þarna upp eft­ir. Í morg­un sáum við að marg­ir bíl­ar hefðu farið á hliðina og marg­ir jafn­framt fest sig.

Gunnar Bragi sagðist í færslu á Facebook hafa verið veðurtepptur í nokkrar klukkustundir í Staðarskála. „[Það er] ófært í báðar áttir en mikið fjör og hellingur af fólki á staðnum,“ sagði hann.

Holtavörðuheiðin opnaði rétt fyrir klukkan átta í morgun.

Auglýsing

læk

Instagram