Reynir á að reka gistiheimili í Reykjavík: Eins og að skilja ósjálfbjarga börn eftir ein heima

Hjónin Berglind Björk Halldórsdóttir og Hannes Þór Baldursson breyttu einbýlishúsi sínu í miðborginni í gistiheimilið Our House í kjölfarið á hruninu. Berglind lýsir á kostulegan hátt hvernig var að reka gistiheimilið í pistli í Fréttatímanum en lífið með ferðamönnunum var ekki alltaf dans á rósum.

„Ég kom fólki undir læknishendur þegar það hrundi upp og niður stigana í húsinu og stakk upp á að það fengi vottorð upp á mígreni þegar það missti af flugi vegna svæsinna timburmanna,“ segir Berglind í pistlinum.

Breska konan sem drakk heila vodkaflösku fyrir kvöldmat, datt úr sófanum beint á andlitið, braut tönn og pissaði á sig en vildi samt ekki alls ekki fara til læknis.

Berglind segir bresku konuna hafa neitað að fara með sjúkraliðunum og að hún hafi eytt fyrstu nóttinni sinni á Íslandi í fangaklefa. „Ég veitti henni sáluhjálp daginn eftir og hjálpaði henni að leita að veskinu sínu sem fannst í Hallgrímskirkju,“ segir Berglind í pistlinum.

„Flestir gestir drukku þó áfengi í hófi og hlýddu ágætlega reglunni um að hafa þögn í húsinu eftir miðnætti en fólk þurfti ekki að vera ölvað til þess að vera til vandræða.“

Berglind segir að það hafi varla liðið dagur án þess að eitthvað færi úrskeiðis. „Indversk kona á áttræðisaldri læstist úti eftir að hafa farið í morgungöngu, klifraði upp á þak og sat þar föst þar til eiginmaður hennar vaknaði og fór að svipast um eftir henni,“ segir hún.

„Sá maður hrasaði síðar um gangstéttarhellu á leiðinni í matvörubúðina, braut gleraugun sín og marðist allur.“

Berglind segist stöðugt hafa verið á nálum ef hún þurfti að bregða sér frá og að henni hafi liðið eins og hún væri að skilja ósjálfbjarga börn eftir ein heima.

„Reykskynjarar fóru á fullt þegar franskt par reyndi að grilla ostasamloku í brauðristinni, kínversk kona kunni ekki að skrúfa fyrir baðið og olli heljarinnar vatnstjóni og sturtuhurð úr hertu gleri splundraðist í þúsund mola þegar Þjóðverji skellti henni of fast,“ segir Berglind.

„Hlutirnir voru að fara úr böndunum og andlegt ástand mitt var orðið slíkt að þegar ég keyrði til vinnu á morgnana var mig farið að langa að gefa rækilega í á leið niður Skólavörðustíginn.“

Smelltu hér til að lesa kostulegan pistil Berglindar.

Auglýsing

læk

Instagram