Segir kynleiðréttingaferlið á Íslandi vera úrelt og verra en í öðrum löndum

Andie Fontaine, fréttaritstjóri The Reykjavík Grapevine, segir ferlið sem sem trans og kynsegin fólk þarf að fara í gegnum á Íslandi sé mun flóknara og erfiðara en tíðkast í öðrum löndum. Ferlið sé þá erfiðara fyrir erlenda ríkisborgara. Þetta skrifar Fontaine í pistli sínum í Reykjavík Grapevine.

Fontain segist hafa komið út sem trans og kynsegin fyrir nokkrum vikum og að hán hafi fengið mikinn stuðning síðan þá frá fólki í kringum sig og fólki sem hán þekkir ekki. Margir hafi spurt hvort hán kvíði viðbrögðum fólks en Fontaine segir mesta óttan tengjast úreltu kerfi á Íslandi.

„Í fyrsta lagi er „kynsegin” ekki viðurkennt hugtak í íslenskum lögum né í heilbrigðiskerfinu. Ef þú vilt breyta um kyn þarftu að velja karl eða kona. Þú verður svo að „lifa sem” eitt af þessum kynjum í að minnsta kosti sex mánuði og alveg upp í átján mánuði eða lengur. Á þessum tíma eru spurðar spurningar um einkalíf einstaklings. Hvaða nærbuxum fólk gengur í og hvaða kynlífsstellingar því finnst bestar,” skrifar Fontaine.

Hán segir ekkert af þessu tengjast kyni einstaklinga. Trans fólk lifi í því kyni burtséð frá því hvernig það klæðir sig eða hvernig kynlíf það stundar, rétt eins og aðrir.

„Allt þetta þarf að gerast áður en þú breytir um kyn og meira að segja áður en þú breytir um nafn, nafn sem þarf að vera karlkyns eða kvenkyns. Ef þú ert ekki Íslendingur þá þarftu að breyta nafninu þínu og kyni fyrst í þínu heimalandi svo að Ísland viðurkenni það.”

Hán segir þetta vera enn eitt dæmið um að íslenska kerfið mismuni eftir þjóðerni.

„Kyn okkar, hormónar okkar og nöfnin okkar, ekkert af þessu ætti að vera eitthvað sem stjórnkerfið og skrifræði stendur í vegi fyrri. Þetta eru hlutir sem við eigum og skilgreinum sjálf og vonandi munu lögin endurspegla það einn daginn.”

Auglýsing

læk

Instagram