Hefur niðurskurður síðustu ára á Landspítala verið jafnaður?

10 milljarðar hafi verið veittir til spítalans með fjárlögum 2014 og frumvarpi til ársins 2015 og niðurskurður síðustu ára þar með jafnaður.

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, í Bítinu á Bylgjunni, föstudaginn 12. september.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir ný framlög til spítalans hafa þurft að vera 16 milljarðar, svo þessi fullyrðing standist. „Samanlögð aukning í rekstrargrunn spítalans á nefndu tímabili er hins vegar 3,5 milljarðar auk þess sem nýtt framlag til stofnkostnaðar var um 2,8 milljarðar og hafa því verið veittir samtals 6,3 milljarðar króna til spítalans þessi tvö ár. Þetta er nokkuð fjarri þeim tíu milljörðum sem formaðurinn nefndi,“ segir hann.

Hann segir hugsanlegt að Vigdís vísi til þeirra launa- og verðlagsbóta sem spítalinn hefur fengið — bæturnar nýtist Landspítala að engu leyti til nýrra verkefna heldur eingöngu til að halda í horfinu miðað við óbreytta starfsemi. Páll setur upp dæmi til skýringar:

Á vökudeild spítalans eru 20 rúm og til þess veittar um 350 mkr. á þessu ári. Á næsta ári fær spítalinn til þess 365 mkr. og getur því rekið þessi 20 rúm áfram. Þessar 15 mkr. er ekki hægt að nýta til að auka starfsemina heldur einungis viðhalda henni því þær fara til að borga umsamdar launahækkanir og rekstrarvöru sem hækkað hefur í verði.

Páll segir hæpið að halda því fram að framlög hafi verið aukin þegar einungis er um viðhald fyrri starfsemi að ræða. „Staðreyndin er sú að í ár fær Landspítali um 10% minna fé til reksturs en hann fékk árið 2008, miðað við fast verðlag,“ segir hann.

Auglýsing

læk

Instagram