„Súrrealískt þegar Chris Martin kemur upp að þér og segist elska það sem þú ert að gera“

Hljómsveitin Kaleo kom fram í þætti Conans O’Brien á dögunum. Í kjölfarið spilaði hljómsveitin í partíi í Hollywood hjá leikaranum Aaron Paul, sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt í þáttunum Breaking Bad. Þetta kemur fram í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

„Við spiluðum í einkasamkvæmi í Hollywood hjá félaga okkar Aaron Paul en hann er mikill aðdáandi,“ segir söngvarinn Jökull Júlíusson í Morgunblaðinu.

Við spiluðum heima hjá honum inni í stofu í mjög aflsappaðri stemningu fyrir líklega 30 manns. David Blaine var þarna líka með ýmis töfrabrögð. Þetta var mjög fínt en á sama tíma súrrealískt þegar Chris Martin kemur upp að þér og segist elska það sem þú ert að gera.

Á meðal gesta í partíinu voru Justin Timberlake, Charlize Theron og fleiri. „Við fengum mjög góð viðbrögð og auðvitað var djammað eitthvað fram eftir nóttu,“ segir hann.

Kaleo hefur nýlokið mánaðarlöngu ferðalagi um Bandaríkin þar sem uppselt var á alla tónleika sveitarinnar. Meðlimir hljómsveitarinnar fluttu til Texas fyrir ári og Morgunblaðinu kemur fram að þeir séu nú á góðri leið með að meika það vestanhafs.

Það er brjálað að gera hjá strákunum og í Morgunblaðinu eru þeir spurðir hvort lífsstíllinn einkennist af kynlífi, eiturlyfjum og rokki og róli.

„Þú yrðir eiginlega bara að koma með okkur á túr til að meta það. Ég er allavega ekki eins „extreme“ og margir halda,“ svarar Jökull.

„Það ganga eflaust ýmsar sögur af rokklíferninu þar sem eiturlyf og fleira kemur við sögu en ég er ekki þar. En þetta fylgir. Menn skemmta sér þegar tækifæri til þess gefst en það er ekki hægt að spila sex kvöld í viku og vera ekki í standi til þess. Það er alveg prinsipp að menn mæti 100% til leiks í hvert gigg.“

Auglýsing

læk

Instagram