Þrettán forsetaframbjóðendur þurfa að safna samtals 19.500 undirskriftum meðmælenda

Þrettán manns hafa boðið sig fram í embætti forseta Íslands. Nú síðast gaf Guðrún Margrét Pálsdóttir, hjúkrunarfræðingur og einn af stofnendum ABC barnahjálpar, kost á sér.

Frambjóðendur þurfa samkvæmt lögum að skila inn meðmælum frá minnst 1.500 manns úr öllum landsfjórðungum. Frambjóðendurnir 13 þurfa því að safna að minnsta kosti 19.500 undirskriftum. Aðeins má skrifa undir hjá einum frambjóðanda. Lögin hafa verið eins frá forsetakosningunum árið 1952. Íslendingar voru þá rúmlega 146 þúsund talsins en eru í dag rúmlega 331 þúsund.

Rithöfundurinn Þorgrímur Þráinsson gaf kost á sér í nóvember og Youtube-stjarnan Ari Jósepsson var þá þegar búinn að tilkynna framboð. Athafnamaðurinn Ástþór Magnússon tilkynnti svo um framboð sitt rétt eins og Elísabet Jökulsdóttir rithöfundur.

Þá hafa Hildur Þórðardóttir, þjóðfræðingur og rithöfundur, Sturla Jónsson vörubílstjóri, Heimir Örn Hólmarsson rafmagnstæknifræðingur og Vig­fús Bjarni Al­berts­son sjúkrahúsprestur gefið kost á sér. 

Á dögunum gáfu svo kost á sér Halla Tómasdóttir athafnakona og Bæring Ólafsson, fyrrverandi forstjóri og framkvæmdastjóri hjá Coca Cola International, Hrannar Pétursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri samskiptasviðs hjá Vodafone og verkefnisstjóri í forsætisráðuneytinu, og Guðmundur Franklín viðskiptafræðingur.

Kosn­ing­arn­ar fara fram þann 25. júní og for­setafram­bjóðend­ur þurfa að til­kynna um fram­boð fimm vik­um áður, eða 21. maí.

Auglýsing

læk

Instagram