Katla í Hjartasteini furðar sig á ólíkum spurningum til karla og kvenna, hélt að Ísland væri komið lengra

Fjórar unglingsstúlkur sem fara með hlutverk í Hjartasteini voru spurðar um ástina og hvort þær hefðu þekkst áður en þær léku í myndinni í fjölmiðlaviðtali vegna myndarinnar.

Unglingsstrákarnir voru aftur á móti spurðir hvernig þeim tókst að vera svona sannfærandi í hlutverkum sínum og hvort þeir ætli að leggja leiklistina fyrir sig.

Leikkonan Katla Njálsdóttir, ein unglingsstúlknanna, ræðir þetta á Facebook-síðu sinni og hefur færsla hennar vakið mikla athygli. Hún fer með hlutverk Hönnu í Hjartasteini sem er nú sýnd í kvikmyndahúsum og Rebekku í þáttunum Föngum sem eru sýndir á RÚV á sunnudagskvöldum.

Hjartasteinn gerist yfir sumar í litlu sjávarþorpi á Íslandi. „Þetta er örlagarík þroskasaga sem fjallar um sterka vináttu tveggja drengja sem eru að taka sín fyrstu skref inn í unglingsárin og uppgötva ástina,“ segir um söguþráð myndarinnar.

Mikill munur á spurningum sem lagðar eru fyrir konur og karla

„Í gær fór kvikmyndin Hjartasteinn sem ég er afskaplega stolt af í kvikmyndahús. Vegna myndarinnar hafa verið viðtöl, strákarnir og stelpur hvort í sínu lagi. Fyndið að enn í dag séu spurningarnar milli kynja öðruvísi,“ skrifar Katla á Facebook.

Hún segir í samtali við Nútímann að þær Diljá Valsdóttir, Jónína Þórdís Karlsdóttir og Rán Ragnarsdóttir hafi farið saman í viðtal vegna myndarinnar. Viðtalið hafi verið mjög skemmtilegt og hún hafi lagt sig alla fram við að svara spurningunum vel.

„Við vorum spurðar um ástina, hvernig það er að vera ástfangin, hvernig manni líður þegar maður er ástfanginn og eitthvað í þá áttina. Það kom ein spurning sem kom að myndinni, þekktust þið áður en þið byrjuðuð á myndinni,“ segir í færslu Kötlu á Facebook.

Það var ekki fyrr en hún las viðtal við leikarana Baldur Einarsson og Blæ Hinriksson á öðrum fréttamiðli að hún áttaði sig á því að þeir höfðu fengið allt aðrar spurningar.

„En svo las ég viðtal við Blæ og Baldur leikara í Hjartasteini, þá var það „Látinn síga niður kletta, var brellum beitt?“, „Af hverju sóttuð þið um að leika í myndinni?“, „Hvernig tókst ykkur að vera svona sannfærandi í hlutverkunum?“, „Var þetta ekki erfitt?“… ég fatta þetta ekki,“ skrifaði Katla einnig.

Eitthvað sem fólk hugsar en þorir ekki að segja

Katla segist hafa tekið eftir því síðustu ár að oft er mikill munur á þeim spurningum sem lagðar eru fyrir karla og konur, til að mynda þegar fjallað er um kvikmyndir.

Hún segist oft hafa tekið eftir þessu í Hollywood og það hafi komið henni á óvart að staðan sé líka svona á Íslandi, í ljósi þess að Íslendingar standa framar en mörg lönd í jafnrétti kynjanna.

„Ég held að þetta sé eitthvað sem fólk hugsar en þorir ekki að segja, það er hrætt við afleiðingarnar. Ég var mjög stressuð að fá neikvæðar athugasemdir. Ég er mjög ánægð með að fólk hefur tekið þessu vel, þetta hefur fengið jákvæða athygli,“ segir Katla.

Vill gera leiklistina að ævistarfi

Hún segist hafa mikinn áhuga á leiklistinni og vonast til að gera hana að ævistarfi, allavega eins og staðan er í dag. „Ég veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér,“ segir Katla.

Í Hjartasteini fer hún með hlutverk Hönnu og má segja að þær séu töluverðar andstæður. Hanna er frekar lokuð týpa, heldur aftur af sér, hvíslar skoðunum sínum til vinkvenna sina og vill láta lítið fyrir sér fara. „Það er einmitt andstæðan við mig, ég stend með sjálfri mér,“ segir Katla.

Þetta var í fyrsta skipti sem Katla fór með hlutverk í bíómynd en áður hafði hún leikið í barnaþáttum. Eftir Hjartastein fékk hún hlutverk í bandarískri stuttmynd fyrir fyrirtækið Mercedes-Benz og því næst hlutverk í föngum þar sem hún leikur Rebekku.

Auglýsing

læk

Instagram