Ungir Sjálfstæðismenn svara áskorun Elliða og félaga

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum vilja að Unnur Brá Konráðsdóttir, 4. þingmaður Suðurkjördæmis, verði skipuð innanríkisráðherra.

Þetta kemur fram í áskorun sem Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, og bæjarfulltrúarnir Páley Borgþórsdóttir, Páll Marvin Jónsson, Trausti Hjaltason og Birna Þórsdóttir skrifa undir.

Bæjarfulltrúarnir telja eðlilegt að fyrsti kostur við val á ráðherra sé þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, sem þeir kalla höfuðvígi flokksins.

Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, hefur svarað áskoruninni með eigin áskorun. Félagið telur að velja eigi hæfasta einstaklinginn í embætti innanríkisráðherra, en ekki hæfasta Sunnlendinginn eða hæfustu konuna:

Því er Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hvattur til að velja hæfasta einstaklinginn í embætti innanríkisráðherra án tillits til kyns, búsetu eða annarra þátta sem hafa engin áhrif á hæfi fólks. Einstaklingar eiga að vera metnir að eigin verðleikum, en ekki á grundvelli eiginleika sem þeir hafa enga stjórn á.

Bjarni Benediktsson segir að eftirmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur verði ekki skipaður fyrr en eftir næstu helgi. Líklegt þykir að Einar K. Guðfinnsson verði skipaður innanríkisráðherra.

Auglýsing

læk

Instagram