Vilja fá frítt á kvennalandsleikinn: „Það eru enn þá til nokkrir geirfuglar”

Sala fyrir stórleik Íslands og Þýskalands á laugardag hefur farið vel af stað. Íslenska landsliðið á möguleika á því að tryggja sér sæti á HM með sigri. Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, telur líklegt að það verði uppselt á leikinn. Hún greindi frá því í viðtali á Rás 2 í morgun að fólk sækist frekar eftir frímiða á þennan leik þar sem þetta sé kvennaleikur, KSÍ sé ósammála því viðhorfi.

Klara segir að einungis séu um 1600 miðar eftir á leikinn og miðað við veðurspánna og vaxandi fjölmiðlaumfjöllun telji hún líklegt að seljist upp, það hafi lengi verið markmiðið.

Sjá einnig: Stelpurnar okkar slá áhorfendametið á laugardag

Þegar talið barst að boðsmiðum benti hún á að það séu ekki margir boðsmiðar í boði á þennan leik, ekki frekar en aðra A-landsleiki. Bakhjarlar fái tækifæri á að kaupa miða fyrir fram en boðsmiðar fari til stjórnarmanna, starfsmanna og leikmanna. Hún segir að fólk sækist meira eftir frímiðum en vanalega vegna þess að þetta sé kvennaleikur. Þá hafi fólk einnig verið að biðja um afslætti eða miða á barnaverði.

„Fólk telur sig ekki eiga að borga sig inn á þennan leik vegna þess að um kvennaleik er að ræða. Við erum algjörlega ósammála því.Það er þannig hjá sumum en ekki öllum, sem betur fer. Það eru enn þá til nokkrir geirfuglar sem að hugsa þannig,“ segir Klara við Rás 2.

Auglýsing

læk

Instagram