Nýja Sundhöllin er án efa ein fallegustu vonbrigði miðbæjarins

Velkomin í „Sundrýni Gunnars“. Í dag ætlum við að skoða nýju Sundhöllina.

Karlaklefinn:

Klefinn sjálfur hefur lítið breyst. Nýjar flísar og blöndunartæki eru hjá sturtunum. Flísarnar eru flottar og blöndunartækin sjálf eru gullfalleg og smellpassa inn í fagurfræði gömlu Sundhallarinnar. Hinsvegar er allt of takmarkaður styrkur á vatnsflaumi tækjanna og það virðist í þokkabót ekki vera hægt að fá almennilegan hita úr þeim. Þetta er ekki gott og ég vona að einhver eigi eftir að fínstilla þetta. Hugvekja: Hönnun á blöndunartækjum náði fullkomnun fyrir 100 árum eða svo og síðan þá er sífellt verið að reyna að enduruppfinna hjólið, blöndunartækjalega séð, með verri og verri árangri! Af hverju er þetta? Hvað er að okkur? (retórísk spurning)

Nýja sundlaugin:

Ég tók laufléttan sundsprett í nýju lauginni. Mér þykir að mörgu leyti glatað tækifæri að það hafi ekki verið splæst í 50 metra laug. Geri mér grein fyrir að það var takmarkað pláss til að vinna úr en ég tel samt að það hefði verið hægt. Tók eftir því að brautirnar voru þrengri en gengur og gerist, a.m.k. gat ég ekki synt vandræðalaust fram hjá manneskju á sömu braut. Mögulega væri sterkari leikur að hafa þetta þrjár ríkmannlegar brautir, fremur en fjórar fátæklegar. Ég set einnig spurningamerki við sundlaugabakkann (meira um það seinna).

Aðgengi fyrir fatlaða:

Mjög gott sýnist mér, þarna eru lyftur og vél-armar og ég veit ekki hvað og hvað til að koma til móts við þá í hreyfihamlaðri kantinum.

Grunni potturinn fyrir börn:

Barnavænn og kósý. Þar er gosbrunnur sem vakti mikla kátínu hjá þeim börnum sem ég sá.

Nýi heiti potturinn:

Í sitthvorum enda pottsins eru takkar sem setja nuddið í gang. Þetta þykir mér óþolandi. Það á bara að hafa nuddið í gangi. Punktur. Sérstaklega er þetta vandræðalegt því potturinn er mjög þröngur og langur, þannig að ef þú vilt halda nuddinu gangandi en situr í miðjum potti þarftu sífellt að standa á fætur og labba út í enda eða gera hróp að fólki um að ýta á takkann. Þetta mun vekja upp deilumál, pirring og ringulreið í pottinum í framtíðinni, vitiði til! Og hér er annað sem er verra: Bæði í sundlauginni og í nýju pottunum er óþarflega beitt brún á bakkanum, þetta þýðir að ef maður vill hvíla höfuðið undurblítt á bakkanum á meðan maður lætur nudda sig (tímabundið, nuddið endist í u.þ.b. mínútu) þá stingst hann óþægilega í hálsinn á manni. Þetta er sambærilegt við það þegar gaddar eru settir á styttur og byggingar úti í heimi til að koma í veg fyrir að dúfur sitji þar. Spurningin sem vaknar er: Af hverju er mér refsað fyrir að vilja slaka á í heitum potti? Er ég ekkert nema sýkt dúfa í augum umheimsins? (svarið er eflaust já, höldum áfram..)

Gufan:

Gufan er vel hönnuð og beint við hliðina á henni er stór kaldur pottur. Í gufunni var sterkur lavender-ilmur eða fnykur af flísa-lími einhverskonar. Þetta er annað hvort frábært, elegant og heilsubætandi eða mjög hryllilegt og heilsuspillandi eftir því hvað á í hlut. Annars var unaður að sitja í gufunni og hún án efa það besta við þessa nýju laug að mínu mati. Sérstaklega ef þetta er lavender.

Kaldi potturinn:

Mjög vel þeginn og gríðarlega sniðugt að hafa hann beint við hliðina á gufunni. Þannig getur fólk auðveldlega flakkað á milli, sér til heilsubótar. Hönnuðir fá líka plús fyrir að hafa kalda pottinn nógu stóran til að hýsa þá sem hafa endalaust þol og vilja flatmaga í honum lengi sem og þá sem vilja dýfa sér í kalda vatnið stuttlega, fá vægt hjartaáfall og stökkva síðan strax upp úr. Hinsvegar fá hönnuðir mínus í kladdann fyrir þennan vafasama bakka, sem er eins og í nýja heita pottinum og lauginni.

Lýsing og fagurfræði:

Lýsingin er algjörlega frábær og Sundhöllin festir sig í sessi sem fallegasta listaverkið í sundlaugaflóru Íslands. Mér þykir það þó höfuðsynd þegar meira er hugsað um fegurð en notagildi, og tel það í raun draga úr sannri fegurð hlutanna. Gott dæmi eru blöndunartækin sem passa fullkomlega inn í útlit laugarinnar en virka illa. Ef hugað hefði verið að öllu sem sannur sundnörd vill fá út úr sinni sundferð og minni metnaður verið lagður í lúkkið þá hefði laugin samt eflaust náð að skora hærra hjá mér. Ég gæti talað meira um þetta og hina póst-módernísku martröð sem einkennir nútímann, þar sem yfirborðinu er hampað á kostnað hins djúpa og sanna, en ég læt nægja að segja að mér finnst glötuð tækifæri einkenna þessa nýju laug að mörgu leyti.

Niðurstaða:

Nýja Sundhöllin er án efa ein fallegustu vonbrigði miðbæjarins. Get ekki gefið henni meira en 7 af 10, með þeim fyrirvara að ef blöndunartækin eru löguð og sundlaugar- og potta-bakkarnir pússaðir niður þá mun unaður og slökun gesta aukast margfalt að mínu mati og ég mun hækka einkunnina. Vildi óska þess að ég gæti verið jákvæðari, mun pósta annarri sundrýni ef ég vil taka eitthvað af þessu til baka og tek fram að ég var mögulega með of miklar væntingar.

Kostir:

  • Gufan og kaldi potturinn hittu í mark
  • Lýsingin unaðsleg
  • Gott aðgengi fyrir fatlaða

Ókostir:

  • Sundlaugin of lítil
  • Bakkarnir óþægilegir
  • Nýi heiti potturinn er visst klúður
  • Blöndunartækin í karlaklefanum hræðileg (eða illa stillt, leyfum þeim að njóta vafans með það).
Auglýsing

læk

Instagram