Kristinn Dagur segist ekki vera puntudúkka, segir gagnrýni sína á RÚV hafa verið hófstillta

Kristinn Dagur Gissurarson, sem situr í stjórn RÚV, hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar umfjöllunar um viðtal við hann á Útvarpi Sögu í vikunni. Þar sagðist hann ætla að ræða framgöngu Reykjavíkurdætra í þætti Gísla Marteins á stjórnarfundi og sagði að hún hálfgerða klámsýningu hafi verið að ræða.

Þá gagnrýndi hann fréttaflutning RÚV í viðtalinu. „Ég verð nú að segja það að ég hef nú látið í mér heyra á stjórnarfundum um að mér finnst RÚV á stundum um of ástunda það sem er kallað gulu pressu fréttamennsku,“ sagði hann.

Sjá einnig: Stjórn RÚV ræðir framgöngu Reykjavíkurdætra: „Hálfgerð klámsýning í þætti Gísla Marteins“

Sigmar Guðmundsson, annar stjórnenda Morgunútvarpsins á Rás 2 sagði í kjölfarið á Facebook-síðu sinni að Kristinn Dagur hafi verið að hóta starfsfólki RÚV. „Enn einu sinni er starfsfólki RÚV hótað af stjórnmálamanni með völd,“ sagði hann.

Krstinn segir í yfirlýsingunni að hann sé ekki „einhver puntudúkka“ sem situr í stjórn RÚV til þess eins að þiggja stjórnarlaun sem nema um 80 þúsundum króna á mánuði, fyrir skatta.

„Mér ber að hafa hag RÚV að leiðarljósi og vinna eftir lögum um Ríkisútvarpið ohf. Það að ég hafi á hófstilltan hátt rætt í þessu viðtali ýmislegt sem ég teldi ekki samrýmast dagskrárstefnu Ríkisútvarpsins og gildum þess, – hafi orðið til þess að fáeinir „fjölmiðlamenn“ kjósa að ata mig auri og vera með dylgjur og illmælgi í minn garð er undrunarefni og segir meira um þá en mig,“ segir hann. „

Tek skýrt fram að þetta á ekki við um allar fréttir af málinu. Hvað varðar fésbókarfærslu Sigmars Guðmundsonar, dagskrárgerðarmanns hjá RUV, hef ég svarað henni á þeim hinum sama vettvangi.“

Þá lét hann fylgja niðurlag greinar sem hann ritaði síðastliðið haust og birtist í Fréttablaðinu 12. nóvember 2015. „Ég stend við hvert orð sem þar er að finna,“ segir hann.

„RÚV er í þágu okkar allra. Framsóknarflokkurinn hefur ætíð staðið vörð um þessa menningarstofnun sem hefur fylgt okkur lengi og meginþorri þjóðarinnar vill hafa við hlið sér. Mikill mannauður og ómetanleg menningarverðmæti eru fólgin í RÚV. Þekking, reynsla og hæfileikar starfsmanna RÚV er gnægtarbrunnur sem þjóðin nýtur góðs af. Undirritaður mun sem stoltur framsóknarmaður og stjórnarmaður í RÚV beita sér, hér eftir sem hingað til, fyrir öflugum og hlutlægum fjölmiðli í almannaeigu.“

Auglýsing

læk

Instagram