Sigmundur Davíð segist hafa unnið vinnuna sína sem þingmaður alla daga ársins nema þrjá

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segist hafa verið í vinnu sem þingmaður á hverjum degi á þessu ári, að frátöldum nýársdegi, páskadegi og öðrum degi páska. Þetta kemur fram í færslu sem hann birti á Facebook-síðu sinni í kvöld en með henni svarar hann gagnrýni

Með færslunni svarar Sigmundur samantekt sem Helgi Bergmann tók saman um mætingu hans sem alþingismaður og birti á Facebook. Þar kom fram að Sigmundur mætti afar sjaldan og hefði sleppt níu fundum af þrettán hjá Utanríkismálanefnd. Hann hefur mætt of seint á alla fundina fjóra sem hann hefur sótt.

Svona hljómaði samantekt Helga Bergmanns

Í dag eru 140 (hundraðogfjörutíu) dagar síðan Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var seinast viðstaddur atkvæðagreiðslu á Alþingi. Alls hefur hann verið viðstaddur einungis 12,8% atkvæðagreiðslna á þessu þingi. Seinast var Sigmundur viðstaddur atkvæðagreiðslu á þingi 22. desember 2016. 

Sigmundur er aðalmaður í Utanríkismálanefnd. Af 13 (þrettán) fundum Utanríkismálanefndar hefur Sigmundur mætt einungis 4 sinnum. 

Einu sinni 45 mínútum of seint.
Einu sinni 56 mínútum of seint.
Einu sinni 1 klukkustund og 41 mínútu of seint.
Einu sinni 20 mínútum of seint. 

Í öll hin 9 (níu) skiptin var Sigmundur fjarverandi á fundum nefndarinnar án þess að boða forföll. 

Sigmundur hefur ekki kallað inn varamann sinn á þessu þingi.

Sigmundur segir í færslunni að í hans tilviki feli starfið stundum í sér verkefni sem séu meira aðkallandi en að sitja í þingsal og hluta á umræðu um fundarstjórn forseta. „Eða taka þátt í slíkum uppákomum,“ skrifar hann.

Sigmundur er þingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, þrátt fyrir að hann sé búsettur í Garðabæ með eiginkonu og dóttur. Það er því langt fyrir hann að fara, vilji hann sinna kjördæminu í eigin persónu.

„Á þingfundardögum mætir maður í þinghúsið eða á skrifstofuna nema maður sé á fundum eða í öðrum verkefnum annars staðar. Stundum eru þeir fundir annars staðar á landinu, langt frá Austurvelli. Þeir sem halda að starf þingmanns felist í að sitja allan daginn í sófunum í þinghúsinu eru ekki að vinna vinnuna sína,“ segir Sigmundur.

Að lokum segist hann frekar vilja bera saman árangur en mætingu. „Þótt það geti verið áhugavert að bera saman hversu lengi hver og einn situr í þinghúsinu er líklega réttara að bera saman þann árangur sem menn skila. Ég er alltaf til í þann samanburð við hvern sem er,“ skrifar Sigmundur.

 

Auglýsing

læk

Instagram