„Elska að fá að upplifa að vera einhver annar en ég sjálf“

Leikkonan, rapparinn og nú söngkonan Þuríður Blær Jóhannsdóttir, sem alla jafna er kölluð Blær, leikur aðalhlutverkið í nýjum ævintýra söngleik, Draumaþjófnum, sem frumsýndur var á dögunum í Þjóðleikhúsinu. Þrátt fyrir mikið annríki rétt fyrir frumsýninguna gaf hún sér tíma til þess að hitta blaðamann yfir kaffibolla. Við spjölluðum aðeins um ferilinn og hlutverk hennar í þessu magnaða verki.

Aðspurð segist Blær vera fædd og uppalin í 101 Reykjavík og gekk í Austurbæjarskóla. Hún bjó lengi vel í miðbænum og flutti þaðan í Vesturbæinn en tekur það þó sérstaklega fram að það hafi verið alveg við miðbæinn. Hún lærði leiklist í Listaháskólanum og strax eftir útskrift þaðan, lá leiðin beint í Borgarleikhúsið þar sem hún var fastráðin í 7 ár. Nýverið hætti hún þar og er nú sjálfstætt starfandi en tók þetta stórkostlega hlutverk að sér í þessu magnaða stykki í Þjóðleikhúsinu.

Hvers vegna ákvaðstu að fara í leiklist? „Sko, mig langaði alltaf að verða leikkona og hélt að allir væru þannig líka. Ég hélt að öll börn segðu að þau vildu verða leikarar. Ég náttúrulega bjó í 101 þar sem umhverfið var þannig að þar voru mörg „kúltúrbörn“ og flest þeirra vildu verða leikarar þegar þau yrðu stór. Ég hef alltaf verið í góðum tengslum við barnið í sjálfri mér og elska að leika mér. Ég elska að fá að upplifa að vera einhver annar en ég sjálf og fá frí frá sjálfri mér. Það er eitthvað sem mig hafði alltaf langað. Auk þess að hafa verið í Borgarleikhúsinu hefur Blær einnig leikið í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, má þá meðal annars nefna Ráðherrann og Villibráð sem var frumsýnd í janúar og er búin að slá öll met.

Þetta er brot úr ítarlegra viðtali Vikunnar sem finna má í heild sinni á áskriftarvef Birtings.

Auglýsing

læk

Instagram