Fékk áfall þegar stríðið hófst

Óperusöngkonan og tónskáldið Alexandra Chernyshova fluttist til Íslands frá Úkraínu fyrir nítján árum, eftir að hafa orðið ástfangin af Íslendingi í Barcelona.

Hún er þessa dagana að semja óperuballett fyrir börn um jólasveinana þrettán og stefnir að því að gefa út tvær plötur á árinu, aðra til að fagna tuttugu ára starfsferli sem óperusöngkona og hina með lögum úr óperunni „Skáldið og biskupsdóttirin“. Þótt hún segi að Ísland sé hennar heimaland slær úkraínskt hjarta hennar með úkraínsku þjóðinni, þar sem stríð geisar í gamla heimalandinu. Hún segist hafa fengið áfall þegar fréttir af því að stríð væri hafið bárust og hún biðji á hverjum degi fyrir því að friður náist. Alexandra á ættingja bæði í Úkraínu og Rússlandi og þótt þeir séu öruggir þegar þessar línur eru skrifaðar segir hún ómögulegt að vita hvort þeir verði það áfram ef fram heldur sem horfir.

Þetta er brot úr lengra viðtali. Finna má það í heild sinni á áskriftarvef Birtíngs.

Sjö daga fríáskrift er í boði fyrir nýja áskrifendur.

 

„Ég hitti svo flottan Íslending, Jón Hilmarsson, þegar ég var að vinna í Barcelona þar sem ég sá um að túlka fyrir úkraínsk börn sem voru stödd hjá spænskum fjölskyldum í nágrenni Barcelona í tvo mánuði, en foreldrar þeirra höfðu lent í kjarnorkuslysinu í Tsjernobil,“ svarar Alexandra brosandi, aðspurð um það hvers vegna hún hafi ákveðið að flytja til Íslands á sínum tíma. „Það var ást við fyrstu sýn og ekki aftur snúið, við vildum vera saman, þannig að hann heimsótti mig svo til Úkraínu og bað föður minn um hönd mína. Við fluttum síðan til Íslands og búum núna í Reykjanesbæ.“

Eiginmaður Alexöndru starfar sem sjálfstæður ljósmyndari og þau hjónin eiga þrjá syni. Áður en þau fluttu í Reykjanesbæ höfðu þau búið í Skagafirði í nokkur ár, þar sem Alexandra stofnaði söngskóla og Óperu Skagafjarðar og stýrði auk þess stúlknakór. Þau fluttu í Reykjanesbæ fyrir nokkrum árum. „Jón er Keflvíkingur,“ segir Alexandra. „Tengdaforeldrar mínir, Elísabet og Hilmar, bjuggu þar og við hjónin vorum alltaf með annan fótinn í Keflavík. Við ákváðum að flytja aftur í heimabæ Jóns árið 2016 og það er voða gott að búa þar. Auðvitað hugsa ég stundum að það væri gaman að búa í miðbæ Reykjavíkur, ég er svo mikill borgarbúi, enda fannst mér var skemmtilegast að búa í miðbænum í Kænugarði í Úkraínu, en svo er ég líka mikið náttúrubarn og kann að meta ferskt loft og sjávarútsýni.“

Manstu hvernig þér leið þegar þú komst til Íslands í fyrsta sinn?

„Já! Ég kom í október, það var snjór og það var dimmt. Ég sá norðurljósin í fyrsta skipti og því mun ég aldrei gleyma. Þvílík upplifun! Það var bara eins og ég hefði stigið inn í eitt af ævintýrum H.C. Andersen, sem ég las mikið sem barn.“

Vildi sjálf læra íslensku til að standa sig vel sem tónlistarkennari

Alexandra segir lífið á Íslandi vissulega frábrugðið því lífi sem hún lifði í Úkraínu, allt frá veðri til matarvenja og hefða sem ríkja í samfélaginu. „Ég er fædd og uppalin í Kænugarði, við bjuggum í  miðbænum og ég naut þess að búa miðsvæðis, ég elskaði að fara í hverri viku í leikhús og á alls konar tónleika, sýningar og söfn. Sem barn var ég mjög ákveðin, en mig langaði alltaf að gera gagn, vanda mig við allt sem ég gerði og alveg frá því ég var lítil stelpa elskaði ég allt fallegt. Það má kannski segja að ég hafi verið fagurkeri strax sem barn. Ég verð að viðurkenna að það var ekki auðvelt fyrir mig að komast inn í menninguna á Íslandi og finna mig hér, en ég fylgdi hjartanu og sá að Íslendingar hafa sömu ástríðu og ég; söng og tónlist. Þegar ég hélt fyrstu einsöngstónleikana mína í Salnum í Kópavogi árið 2003, þar sem ég söng aríur, rómönsur og sönglög á átta tungumálum, fannst mér eins og ég og áhorfendur töluðum sama tungumálið. Söngur er alþjóðlegt tungumál.“

Blaðamaður hefur á orði að Alexandra tali svo fína íslensku, sem ekki sé nú endilega auðveldasta tungumál í heimi. „Takk fyrir það. Íslenskan er alls ekki auðveld og það tók dálítinn tíma að skilja hljóðflæðið í henni. Ég talaði ensku fyrst eftir að ég kom til Íslands en þegar ég fór að kenna söng í Tónlistarskólanum, sá ég að ég þyrfti að læra íslensk tónlistarorð sem notuð eru í kennslu og frasa sem ég gæti notað við kennsluna. Þannig byrjaði það nú. Ég vildi sjálf læra íslensku til að standa mig vel í vinnunni minni sem tónlistarkennari og skilja fólkið betur í kringum mig. Mig langaði ekki að vera alltaf að biðja einhverja um að þýða fyrir mig eða spyrja hvort þau gætu talað ensku.“

Finnst þér eitthvað einkenna Íslendinga?

„Íslendingar eru mjög stoltir af því að vera Íslendingar og elska landið sitt og finnst allt íslenskt vera best,“ segir Alexandra og skellir létt upp úr. „Það finnst mér svolítið einkennandi fyrir þá. Íslendingar eru mjög sjálfstæðir, duglegir og hafa frelsi til að tjá sig sem birtist kannski eins og það séu fordómar gagnvart öðrum. Svo er maðurinn minn alltaf að minna mig á að Ísland standi mjög framarlega í kvenréttindum í heiminum.“

„Heimur minn fór á hvolf 24. febrúar, við innrásina í Úkraínu. Eins og staðan er í dag veit ég að fólkið mitt er óhult en hver veit hvað verður á morgun eða í framtíðinni. Það veit enginn.“

Fékk áfall þegar stríðið hófst

Talið berst aftur að gamla heimalandinu, eins og Alexandra kallar Úkraínu, þar sem nú geisar stríð eftir innrás Rússa í landið. Það hlýtur að taka á úkraínskt hjarta Alexöndru? „Já, það gerir það svo sannarlega. Ég á ættingja bæði í Úkraínu og Rússlandi, og ástandið er bara hræðilegt eins og er, alveg hræðilegt. Heimur minn fór á hvolf 24. febrúar, við innrásina í Úkraínu. Eins og staðan er í dag veit ég að fólkið mitt er óhult en hver veit hvað verður á morgun eða í framtíðinni. Það veit enginn.“

Alexandra segir mjög sorglegt að horfa upp á þessar frændþjóðir, Rússland og Úkraínu, í stríði. „Það er ofboðslega sárt. Þetta eru þjóðir sem tengjast sterkum böndum og eiga mikla og langa sögu saman. Ég get ekki ímyndað mér að búa ekki í frjálsu landi, það er ekki líf. Á hverjum degi bið ég fyrir því að friður komist á og vona að þessu stríði ljúki sem fyrst. Ég er mjög þakklát fyrir stuðninginn og samstöðuna sem Íslendingar hafa sýnt úkraínsku þjóðinni. Ég fékk mikið áfall þegar stríðið hófst. Síðan var hringt í mig og mér boðið að syngja á friðartónleikum til styrktar flóttafólki frá Úkraínu. Söngurinn gaf mér kjark og tækifæri til að sýna kærleikann og gera eitthvert gagn, með því að syngja til styrktar flóttafólkinu og ég hef nú sungið á alls átta styrktartónleikum þar sem allur ágóði rennur til flóttafólks frá Úkraínu. Það er ómetanlegt að geta sýnt samstöðu og stuðning með þeim hætti.“

Mynd frá söngdagskrá um Sigvalda Kaldalóns og móður hans í Hörpu. Mynd: Jón Hilmarsson

 

Auglýsing

læk

Instagram