Helgarvaktin sem öllu breytti

Auglýsing

Ég hef oft tekið að mér ýmsa sjálfboðavinnu, veit eiginlega ekki af hverju af því ekki var ég alin upp við slíkt. Líklega einhver innbyrgð þörf til að láta gott af mér leiða. Það gerir manni líka gott að gera gott fyrir aðra, prófaðu það bara. Sjálfboðavinna á einni helgarvakt fékk mig líka til að meta enn betur öryggi heimilis míns og ákvörðunina sem ég hafði tekið löngu áður. 

Það er ekki fyrr en ég kem að húsinu sem ég tek eftir myndavélum á hverju horni þess, vandlega faldar á þessu stóra virðulega húsi í miðju íbúðarhverfi. Um leið og ég kem að hliðinu opnar ung kona það á undan mér og heldur opnu fyrir mig um leið og hún horfir á mig og brosir vandræðalega, vinalega, svona „ég stend með þér, ég skil þig bros.“ Ég brosi á móti, býð góðan dag og hún hverfur niður meðfram húsinu meðan ég stekk upp tröppurnar og hringi dyrabjöllunni. Ég er vandræðalega meðvituð um að myndavél er á dyrabjöllunni og það þrátt fyrir að hafa ekkert illt í hyggju og von sé á mér. Hver ætli sé að horfa á mig, mæla mig út í myndavélinni?

Dyrnar opnast og kona á óræðum aldri stendur í hurðinni, með hárið úfið og í marglitri mussu. Kona sem hefur margt merkilegra að gera en greiða sér í upphafi dags. Ég brosi og kynni mig: „Hæ ég er komin á vakt, á að vera fram yfir kvöldmat.“

Traust þarf að byggja upp

Auglýsing

Konan kinkar kolli, býður mig velkomna. Ég stíg inn, fer úr skónum og úlpunni og elti hana inn á litla skrifstofu. Þar tekur hún niður nafnið mitt og krossar við mig á lista, segir mér hvað margir séu heima, það sé frekar rólegt, kvöldmatur kl. 19. Mér sé velkomið að borða kvöldmat og fara svo eftir matinn. Frekari eru fyrirmælin ekki, ekkert svona eins og í fyrri vinnum sem ég hef byrjað í þar sem maður fær þykka handbók um störf og skyldur, eltir einhvern um eða situr við hlið einhvers og lærir eins mikið og maður getur í nýja starfinu. Kannski þetta snúist meira bara um að vera á staðnum ef/þegar einhver þarf aðstoð hugsa ég um leið og ég geng um stofur og eldhús og heilsa. 2-3 konur eru á staðnum sem kinka kolli en gefa sig ekkert að mér að öðru leyti. Traust þarf að byggja upp, ég er nógu fullorðin til að skilja það.

Í litlu herbergi við innganginn horfir lítill drengur út á götu, fjögurra ára giska ég á. Kannski er hann að bíða eftir mömmu sinni, eða pabba sínum sem aldrei kemur því vonandi hefur hann ekki hugmynd um hvar sonur hans dvelur. Eða kannski er hann bara að horfa á umhverfið. Ég sest við hliðina á honum og við horfum saman út um gluggann, hlæjum saman að ketti sem leikur sér fyrir utan gluggann, en annars tölum við ekkert saman. Litli drengurinn talar tungumál sem ég skil ekki í þessum örfáu orðum sem hann segir upphátt og frekar við sjálfan sig en mig. Ég kinka bara kolli og brosi. Eftir að við höfum setið þarna í dágóða stund réttir hann fram lófann og sýnir mér lítinn bíl sem hann heldur á. Hann er tilbúinn að treysta mér nóg til að sýna mér dótið sitt, kannski eina dótið sem hann náði með að heiman þegar hann flúði með móður sinni? Ég strýk bílnum og segi hann vera mjög flottan um leið og ég rétti hann tilbaka. Drengurinn kinkar kolli og hoppar niður og hleypur fram í stofu um leið og hann heyrir að kveikt er á barnatímanum í sjónvarpinu.

„Samt er næstum enginn hávaði í þeim fyrir utan sjónvarpið, þetta eru börn sem hafa lært að hafa hljótt um sig, að reita engan til reiði að óþörfu.“


Þetta var brot úr lengri grein. Lífsreynslusaga úr Vikunni. Í hverri viku birtast spennandi lífsreynslusögur.

Lífsreynslusögur er hlaðvarp þar sem blaðakonan Guðrún Óla Jónsdóttir les áhugaverðar lífsreynslusögur úr Vikunni. Í hverjum þætti eru fimm sögur lesnar.

Þættirnir koma inn á Spotify og Storytel.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram