15 ára ökumaður með of marga í bílnum

Um klukkan fjögur í nótt stöðvaði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ökumann á Gagnvegi. Við athugun kom í ljós að ökumaðurinn var einungis 15 ára gamall og þar af leiðandi réttindalaus sökum ungs aldurs.

Ekki nóg með það að bílstjórinn var réttindalaus heldur var einnig einum farþega ofaukið í bílnum. Alls voru fjórir farþegar í bílnum á aldrinum 14 til 17 ára.

Málið var afgreitt með aðkomu móður ökumannsins og var tilkynnt til barnaverndar. Farþegarnir voru í gistingu á heimili mæðginanna.

Lögregla stöðvaði einnig fjölda bílstjóra í gærkvöldi og nótt vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis, eða hvort tveggja.

Um kvöldmatarleytið í gær var ökumaður handtekinn á Reykjavíkurvegi í Hafnarfirði. Hann er grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna, þjófnað á skráningarmerkjum og akstur á ótryggðri bifreið.

Annar ökumaður var handtekinn á Hafnarfjarðarvegi grunaður um að hafa verið undir áhrfium fíkniefna og áfengis. Ökumaðurinn hefur ítrekað ekið án þess að hafa öðlast ökuréttindi og var vistaður í fangageymslu þar sem hann var eftirlýstur.

Tveir ökumenn til viðbótar voru handteknir í nótt en þeir eru báðir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna og áfengis.

Auglýsing

læk

Instagram