Aron Pálmarsson veit ekki hver kýldi hann, biðlar til þjóðarinnar um upplýsingar

Aron Pálmarsson, landsliðsmaður í handbolta, varð fyrir líkamsárás skömmu áður en heimsmeistaramótið í Katar hófst árið 2014. Málið vakti mikla athygli en árásin átti sér stað aðfaranótt sunnudags í miðbæ Reykjavíkur.

Aron kærði árásina til lögreglunnar á sínum tíma en veit enn þann dag í dag ekki hver var að verki og hver ástæðan fyrir árásinni var. Í þættinum Atvinnumennirnir okkar á Stöð 2 í kvöld biðlaði Aron til þjóðarinnar um upplýsingar um málið.

„Það er erfitt að kæra ef þú ert ekki með andlit á bakvið það. En jújú, ég lagði fram kæru en ekkert meira,“ sagði hann í viðtali við Auðun Blöndal í þættinum.

Það var bara einhver algjör snillingur sem ákvað að kýla mig í andlitið. Ég var nýkominn heim og ákvað að kíkja út. Það var nú laugardagur. Það endaði bara upp á slysó — skurður, heilahristingur og ég gat ekki spilað á HM útaf þessu.

Aron veit ekki hver var að verki og sagði í þættinum að hann væri til í að spyrja árásarmanninn hvað bjó að baki.

„Ég biðla bara til þjóðarinnar, ef einhver veit eitthvað. Ég veit ekki hver kýldi mig. Ég væri mest til í að liggja með gæjanum í svona baði eins og við erum í núna og spyrja af hverju,“ sagði hann en viðtalið fór fram í heilsulind í Búdapest.

„Ég fór á skemmtistaðina sem ég var búinn að vera á um kvöldið og talaði við dyraverðina. Þeir sögðu að það hafi ekki verið neitt vesen á mér eða neitt þannig. Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef verið laminn.“

Auglýsing

læk

Instagram