Aðdáendur Stefáns Karls á Reddit senda honum kveðjur og nýtt meme: „Mikið er ég hrærður og þakklátur“

Á tæpum sólarhring hafa fleiri en 3.100 athugasemdir verið skrifaðar við þráð á Reddit þar sem Stefáni Karli Stefánssyni eru sendar kveðjur vegna erfiðra frétta af veikindum hans. Eiginkona hans. Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, sagði þjóðinni frá því á Facebook í vikunni að gallgangakrabbamein Stefáns Karls væri komið á fjórða stig og að lífslíkur hans væru þar af leiðandi verulega skertar.

Sjá einnig: Steinunn Ólína færir sorglegar fréttir af Stefáni Karli, sjúkdómurinn kominn á fjórða stig 

Stefán Karl á gríðarlega marga aðdáendur víða um heim. Hann vakti sérstaklega mikla athygli í hlutverki Glanna glæps (e. Robbie Rotten) í Latabæ og hafa mörg meme verið gerð í tengslum við þá persónu.

Umræddur þráður á Reddit hefst einmitt á einu slíku en þar segir: „The memers may die… But the memes live on.“ Þarna segir að jafnvel þó að þau sem meme-in eru byggð á láti lífið einn daginn, munu meme-in lifa.

„Þvílíkur maður, þvílíkt meme. Varði lífi sínu í að gera það sem hann elskaði,“ skrifar einn þeirra sem skilur eftir athugasemd á þræðinum. Sjálfur deilir Stefán Karl þræðinum á Facebook og segir: „Ástin og umhyggjan er ómæld og svo hjálpleg í gegnum þetta allt saman. Mikið er ég hrærður og þakklátur.“

Þegar Stefán Karl lá á sjúkrahúsi og var að jafna sig eftir aðgerð sem hann gekkst undir vegna krabbameinsins á síðasta ári gaf hann notendum síðunnar Reddit færi á því að spyrja sig spurninga og bárust mörg hundruð slíkar.

Auglýsing

læk

Instagram