Adidas-skór Kanye West koma til Reykjavíkur: „Eftirspurnin er strax orðin svakaleg“

Áhugafólk um strigaskó bíður gríðarlega spennt eftir næsta ávexti samstarfs Adidas og rapparans Kanye West: Yeezy Boost 350 „Black Pirate“. Sala á skónum hefst 19. febrúar og á Íslandi verða skórnir aðeins seldir í Húrra Reykjavík á Hverfisgötu.

Fjölmargir hafa sett sig í samband við Sindra Snæ Jensson, annan eiganda Húrra Reykjavíkur eftir að það spurðist út að skórnir séu væntanlegir til landsins. Í samtali við Nútímann segist Sindri hafa fengið tugi skilaboða og að fólk vilji ýmist vita hvað skórnir kosta, hversu mörg pör verði seld á Íslandi og sumir vilja hreinlega komast framfyrir röðina.

Ekkert slíkt er hins vegar í boði að sögn Sindra. „Fyrstur kemur, fyrstur fær. Það er ekkert flóknara. Fólk getur raðað sér upp frá því við lokum daginn áður,“ segir hann.

Þetta er það stærsta sem hefur nokkurn tíma gerst á Íslandi tengt strigaskóm. Eftirspurnin er strax orðin svakaleg. Fólk á eftir að missa vitið yfir þessu.

Samstarf Kanye West og Adidas hófst árið 2013 og hefur vakið mikla athygli. Skórnir fást ávallt í mjög takmörkuðu upplagi og eru seldir í völdum verslunum víða um heim. Langar raðir hafa myndast fyrir utan verslanir víða og dæmi eru um að fólk safnist saman viku áður en sala hefst. Á vefnum Hype Beast má sjá lista yfir þær verslanir sem fá að selja Yeezy Boost 350 „Black Pirate“.

Eins og Nútíminn greindi frá á dögunum er Húrra Reykjavík á sérstökum lista Nike yfir verslanir sem fá að selja fágæta strigaskó frá fyrirtækinu og verslunin er nú komin á svipaðan lista hjá Adidas.

„Við höfum aðgang að öllu sem er væntanlegt, þar á meðal Yeezy ef þetta gengur vel,“ segir Sindri og bendir á að verslunum hafi tekist að klúðrað sínum málum, t.d. með því að hleypa vinum og vandamönnum fram fyrir raðir.

„Við ætlum að vera mjög fagmannlegir. Það verður ekki gerð ein einasta undantekning,“ segir hann.

Sindri Snær segir að verð, stærðir og aðrar upplýsingar séu væntanlegar fljótlega.

Auglýsing

læk

Instagram