„Það þarf ekki allt að vera svona alvarlegt“

Auglýsing

Umsjón/ Maríanna Björk Ásmundsdóttir
Myndir/ Rakel Rún Garðarsdóttir

Úr tímariti Húsa og híbýla*

Í skammdeginu kíktum við í heimsókn á bjart og fallegt heimili Katrínar Helgu Guðmundsdóttur, starfsmanns Gerðarsafns og Jóns Helga Ingvarssonar, sjúkraþjálfara. Íbúðin er staðsett á annarri hæð í grónum hluta Laugar­ dalsins en staðsetningin og birtan í íbúðinni heillaði parið hvað mest. Katrín er mikill fagurkeri og heldur meðal ann­ ars úti Instagram­síðunni litrík heimili þar sem hún selur einstaka hluti fyrir heimilið, sú hugmynd spratt út frá eigin þörf fyrir frábrugðna og litríka muni.

Íbúðin er staðsett á annarri hæð steinhúss sem byggt var árið 1950, húsið svipar til annarra í Laugardalnum, reisulegt, með stórum gluggum og grónum garði. Þetta er fyrsta íbúðin sem Katrín og Jón kaupa sér saman en hér hafa þau búið síðastliðin tvö ár. Aðspurð að því hvað það var sem heillaði mest við íbúðina og hverfið svarar Katrín að það hafi verið hversu björt og opin hún er, sem skiptir miklu máli í 60 fermetra íbúð. „Sjarmerandi loftlistarnir heilluðu líka mjög mikið og staðsetningin, en það er stutt í mið­ bæinn, Grasagarðinn, Laugardalslaug og Kaffi Laugalæk sem er yndislegt að hafa í næsta nágrenni. Okkur líður rosalega vel í Laugardalnum sem er svo gróið og hlýlegt hverfi.“

Auglýsing

Katrín er uppalin í hverfinu en Jón kemur úr Fljótshlíð sem er rétt fyrir utan Hvolsvöll en áður bjuggu þau saman í leiguíbúð á Lauga­veginum. Þegar kom að því að kaupa íbúð vildi Katrín helst ekki flytja langt frá Laugaveginum en Jón vildi búa aðeins frá miðbænum, að endingu varð íbúð í Laugardalnum fyrir valinu en þau sáu marga möguleika í íbúðinni og urðu þau fljótt mjög hrifin.

Á móti okkur tekur fögur og rúmgóð forstofa með skákborðsmunstruðum flísum, fallegum prentum á veggjum og einstökum skrautmunum sem prýða íbúðina. Á hægri hönd er pastellitað baðherbergi og gengt forstofunni er nota­ legt svefnherbergi með góðu skápaplássi og vel skipulögðu skrifborðshorni. Úr forstofunni er gengið inn í opið eldhús og stofu með stórum stofugluggum sem hleypa góðri birtu inn í íbúðina. Á veggjunum er fallegur litur frá Nordsjö sem heitir Golden light og fæst hjá Sérefnum en liturinn er með ljósbrúnum og gylltum tónum, eldhúsveggurinn er í dekkri súkkulaðibrúnum lit sem gefur rýminu aukna dýpt. Ljósa­ krónan og neon­ljós setja svip á rýmið og sameina ljósin klassískt og nýtt útlit á frumlegan hátt en Katrín hefur einstakt lag á því að blanda saman nýjum og gömlum munum sem höfða til þeirra beggja.

Læda Slæda lag og verk eftir Prins Póló.

Hafa einhverjar breytingar verið gerðar á íbúðinni frá því þið fluttuð inn?
„Við byrjuðum á því að rífa upp parketið og flota gólfið í stofunni því það var lakkað flot í eldhúsinu þegar við fluttum inn og vildum við jafna það út.“ Eldhúsið var nýlegt en til að setja sinn stíl á rýmið skiptu þau um borðplötu og flísalögðu. Afgangsefni borðplötunnar nýtti bróðir Jóns í að gera hillur sem sjá má fyrir ofan innréttinguna en þar fá vandaðir eldhúsmunir að njóta sín. Skákborðsflísarnar í forstofunni voru keyptar í Flísabúðinni. „Við fengum hjálp frá fjölskyldunni við að flísleggja gólfið sem við erum hæstánægð með,“ segir Katrín en forstofan er hennar uppáhaldsrými í íbúðinni. Baðherbergið tóku þau í gegn að hluta með því að flota og mála gólfið og setja upp nýja innréttingu. Næst á dagskrá hjá Katrínu og Jóni er að skipta um útidyrahurð og klára að taka baðherbergið í gegn.

„Það sem skiptir mig mestu máli þegar kemur að hönnun á heimilinu er að velja hluti og liti sem gefa hlýlega orku frá sér.“

Hver er þinn stíll og hvað skiptir mestu máli í hönnun á heimili?
„Minn stíll er svolítið út um allt en litríkur maximalisti er frekar lýsandi. Ég er alltaf að breyta og fæ frekar fljótt leið á hlutum sem er ekki alltaf hentugt,“ útskýrir Katrín. Til að mynda skiptir hún um myndir á veggjum og kaupir nýja litríka skrautmuni í ýmsum verslunum til dæmis Ungfrúnni góðu. „Það sem skiptir mig mestu máli þegar kemur að hönnun á heimilinu er að velja hluti og liti sem gefa hlýlega orku frá sér, þess vegna valdi ég brúna tóna fyrir íbúðina en ég á erfitt með þessa gráu liti sem hafa verið vinsælir.“ Katrín hefur verið sérstaklega hrifin af súkkulaðibrúnum lit upp á síðkastið sem sjá má til dæmis á eldhúsveggnum. „Ég er einnig veik fyrir öllu sem er bleikt og litasamsetningin bleikt og brúnt er í miklu uppáhaldi.“ Þar á eftir kemur gulur litur sem er nánast appelsínugulur en alla þessa liti má sjá um íbúðina, meðal annars á veggjunum, í gulu kaffivélinni og bleiku brauðristinni, en Katrínu þykir af­skaplega gaman að elda og eru tækin því sérvalin af henni.

Litadýrðina takmarkar Katrín við smærri hluti og myndir en húsgögn reynir hún að hafa einföld og í hlutlausum litum og lífgar frekar upp á þau með skemmtilegum hlut­ munum. Hún segist ekki alveg vera komin á þann stað að velja litrík húsgögn en það gæti gerst einn daginn. Lýsing og listar setja svip sinn á stofurýmið sem hefur ýmsa ljós­ gjafa. „Lýsing skiptir mig miklu máli, að er ég með björt en hlý á sama tíma. Mér líður ekkert sérstaklega vel í íbúðum sem eru illa upplýstar og því mikilvægt að huga að góðri lýsingu,“ útskýrir Katrín en því getum við verið sammála. Loftlistarnir í stofunni voru eitt af þeim atriðum sem heilluðu Jón og Katrínu við íbúðina, því ákváðu þau að bæta við rósettu og glæsilegri ljósakrónu sem kórónar stofuna. Ljósakrónuna fann Katrín á vefsíðunni Wayfair en hún hafði leitað lengi að ljósakrónu í waterfall­stíl sem gefur frá sér fallega birtu um stofuna. Þá skreytir Katrín reglulega með afskornum blómum til að lífga upp á rýmið.

„Ég er oft hrifin af hlutum sem öðrum þykir kannski eiga heima í barnaherbergi en það er gaman að halda í barnið í sér, það þarf ekki allt að vera svona alvarlegt.“

Loftbelgur úr Myconceptstore sem gleður augað.

SAFNAR FYRIR LISTAVERKUM
Litrík og táknræn verk má sjá um alla íbúð en Katrín útskrifaðist síðastliðið sumar með B.A. í listfræði sem hefur haft áhrif á hönnun heimilisins. „Ég er alltaf að breyta myndaveggnum og kaupa eftirprent og svo eru einhver póstkort, einu sinni var ég með stærri myndir á veggnum en nú er ég með margar minni.“ Til þess að geta keypt þau listaverk sem hana langar í er hún með sérstakan sjóð þar sem hún safnar fyrir verki, þá verða kaupin fyrir vikið léttari þegar að þeim kemur. Spurð að því eftir hvern hún ætli að kaupa verk svarar hún að verk eftir Snorra Ásmundsson séu skemmtileg, einnig eru á listanum Ýmir Grönvold, Auður Ómarsdóttir og Hulda Vilhjálmsdóttir en öll eiga þau það sameiginlegt að vera óhrædd við að nota liti í sínum verkum.

Sveppalampinn er úr Purkhús en neonljósið hefur Katrín átt í mörg ár, keypt af Etsy.

Nýir og gamlir munir fá að njóta sín á heimili parsins en Katrín hefur fundið ófáa hluti í Góða hirðinum sem hafa afgerandi karakter en hún heillast af frábrugðnum hlutum. „Ég er oft hrifin af hlutum sem öðrum þykir kannski eiga heima í barnaherbergi en það er gaman að halda í barnið í sér, það þarf ekki allt að vera svona alvarlegt.“ Hlutir úr Góða hirðinum sem Katrín heldur mikið upp á eru til dæmis Charlie Chaplin myndin í stofunni og Venus­styttan í forstofunni. Stólinn í stofunni er nýr og var keyptur í Tekk, hliðar­ borðið er úr Góða hirðinum og sveppalampinn er úr Purkhús, þetta er gott dæmi um hvernig blanda má saman gömlu og nýju. „Ég kaupi það sem ég hrífst af og reyni að láta það virka, ég hugsa ekki mikið áður en ég kaupi hluti, ég er mjög hvatvís,“ segir Katrín. Það má sjá marga fallega muni í stofunni líkt og svani, perlur og skeljar en Katrín segist vera heilluð af skeljum og sítrónum, það má sjá ákveðinn ævintýrablæ yfir heimilinu þar sem náttúruleg form og mjúkar línur fá að njóta sín bæði í húsgögnum og skrautmunum. Þá skín persónuleiki Katrínar og Jóns í gegnum þeirra litríka og glaðlega heimili.

„Lýsing skiptir mig miklu máli, að rýmin séu björt en hlý á sama tíma.“

Fallegur texti í svefnherberginu eftir Töru Tjörva.

Aðspurð hvað sé framundan á nýju ári svarar Katrín: „Það er spurning hvort við flytjum en við byrjuðum að skoða á nýju ári,“ þá helst í Laugardalnum eða Vesturbænum. Áhugi Katrínar á heimili og hönnun hefur alltaf verið til staðar en hún fékk fyrst útrás fyrir sköpunargleði sinni þegar þau fluttu á Laugaveginn fyrir nokkrum árum síðan. „Þá kvikn­aði þessi brennandi áhugi og hefur verið síðan. Ég myndi segja að ég væri mjög skapandi og er þetta eitt af því skemmtilegasta sem ég geri,“ segir Katrín en hún stefnir á að læra innanhússarkitektinn einhvern tímann á lífsleiðinni. Það verður því spennandi að fylgjast með þeim Katrínu og Jóni í framtíðinni.

 

*Greinin er endurbirt með leyfi

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram