Viðbrögð Kristjáns við mótmælunum:„Ég ætla bara að vinna mína vinnu eins og ég hef gert“

Kristján Þór Júlíusson segir mótmælafundinn, sem haldinn var á Austurvelli um helgina, engu breyta um hans stöðu. Á mótmælunum var þess krafist að hann segði af sér vegna Samherjamálsins.

„Ég ætla bara að vinna mína vinnu eins og ég hef gert og af bestu samvisku og gæta að hæfi mínu.“

Kristján hefur sagt í viðtölum að hann hefði heyrt í Þorsteini Má Baldvinssyni, fyrrverandi forstjóra Samherja, eftir að mál Samherja kom upp og spurt hvernig honum liði eftir umfjöllunina. Hann hefur jafnframt tekið það skýrt fram að hann hafi ekki haft nein afskipti af rekstri Samherja eftir að hann hætti þar fyrir tæpum tuttugu árum.

Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag spurði Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, Kristján um viðbrögð hans við mótmælunum á laugardag. Hún vildi vita hvort afstaða hans hefði breyst eftir fundinn en um 4.000 manns mættu á Austurvöll með skýra kröfu um að Kristján Þór segði af sér og að ný stjórnarskrá yrði lögfest með auðlindaákvæðinu.

Hún spurði einnig hvort honum fyndist að honum væri enn treyst og vildi vita hversu margir þyrftu að lýsa yfir vantrausti til þess að ráðherrann segði af sér og axlaði þannig ábyrgð.

Sagðist hann finna fyrir bæði trausti og vantrausti en það væri daglegt brauð í starfi stjórnmálamanna.

„Ég hef engan mælikvarða á það sérstaklega hvenær það er kominn einhver tiltekinn fjöldi, ég er ekki þeirrar gerðar, að hafa slíka talningu á reiðum höndum og þætti vænt um ef þingmaðurinn upplýsti um töfratöluna.“

Þetta kom fram á vef Rúv.

Auglýsing

læk

Instagram