Átta æðislegir hlutir frá því gamla daga sem við söknum en samt ekki: Taka spólu og bland í poka

Auglýsing

Lífið er flókið í dag — að mörgu leyti flóknara en það var. Vissulega má færa rök fyrir því allt sé að verða betra en við söknum samt gömlu, góðu daganna. Einu sinni var hægt að hanga í sjoppum heilu dagana, henda 50 kalli í spilakassann og taka spólu fyrir hagnaðinn.

Nútíminn tók saman lista yfir hluti sem við söknum. En samt ekki. En samt.

 

1. Bland í poka fyrir afganginn

Grænu pokarnir! Einu sinni dugði 100 kall fyrir sæmilegu magni af nammi. Og einu sinni sá starfsmaðurinn um að setja nammið sem þú valdir ofan í pokann fyrir þig. Við munum öll eftir áfallinu þegar byrjað var að vikta nammið, þá minnkaði magnið töluvert. Við fáum líka hlýtt í hjartað þegar við hugsum um starfsmanninn sem setti mikið nammi í pokann en hjartað er fljótt að kulna þegar við hugsum um þann sem taldi hvert einasta nammi, þannig að maður fékk bara akkúrat fyrir peninginn.

2. Hi-C og Frissi fríski

Auglýsing

Einu sinni var raunverulegt magn af sykri í drykkum fyrir börn. Í dag er allt sykurskert — jafnvel án viðbætts sykurs. Gamli góði Frissi fríski hló að þessu, enda dísætur og unaðslegur. Hi-C hét líka Hi-C vegna þess að fólk fór upp á háa C-ið þegar það sá hversu miklum sykri þeim tókst að troða í litlar fernur.

3. Hanga í sjoppum

Það er ekkert rosalega langt síðan það var sjoppa á hverju götuhorni og þar var gaman að hanga. Í dag eru eiginlega engar sjoppur til að hanga í. Hvar hanga börn? Einu skiptin sem maður sér börn hanga í dag er í Skólahreysti. Sjoppurnar í dag eru líka eiginlega allar eins. Og þær selja bensín. Sjáið bara gamla Staðarskála.

4. Taka spólu

Allar þessar sjoppur voru líka vídeóleigur og það var fastur punktur í tilverunni að taka spólu; eina nýja og fá gamla frítt með. Ef maður vildi taka mynd sem var bönnuð börnum var eins gott að eiga frjálslynda foreldra sem voru til í að skrifa miða: „Gunnar má horfa á myndir sem eru bannað innan 16 ára. Kveðja, Guðrún mamma Gunnars“.

5. Bera út Moggann

Bera börn enn þá út Moggann í dag? Eru yfir höfuð einhver blöð til að bera út? Það er auðvitað frídreifing á fimmtudögum en maður sér aldrei tíu ára vansvefta krakka á hjóli með Moggatösku lengur.

6. Þulur í sjónvarpinu

Einu sinni var fólk í að kynna dagskrárliði í sjónvarpinu. Í dag fáum við þessar tilkynningar frá andlitslausum röddum. Þulurnar voru landsfrægar, virtar og dáðar. Þær vöfði þjóðinni um fingur sér og voru alltaf mættar, á hverjum degi í beinni útsendingu. Við söknum þeirra. Bring back Eva Sólan!

7. Símaskráin

Einu sinni var prentuð risavaxin bók á hverju ári með símanúmerum nánast allra landsmanna. Ótrúleg sóun á pappír en þvílíkt vinalegt og fallegt. Öll saman í einni bók. Þá var líka heimasími sem maður hringdi í og einhver var ekki við, þá þurfti maður bara að hringja seinna. Ekki laust við að maður sakni þess á tímum sítengingar. Númerabirtirinn var fyrsta skrefið í átt að ástandinu eins og við þekkjum það í dag.

8. Flökkusögur sem internetið eyðilagði (og endurlífgaði svo)

Einu sinni héldum við að blátt M&M myndi drepa okkur og það var bannað að flytja það inn. Við héldum að Marilyn Manson hefði látið fjarlægja úr sér rifbein til að geta sogið eigin lim og við héldum að mjólkurvörur erlendis væru óætar. Við héldum reyndar allt í útlöndum væri óætt. Þá var ekki hægt að komast að hinu sanna með auðveldum hætti og það var svolítið skemmtilegt. Í dag eru flökkusagan reyndar lifnuð við á ný í formi falskra frétta en með smá skynsemi er auðvelt láta þær ekki á sig fá.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram