Eiríkur Jónsson ætlar ekki að bjarga Séð & heyrt aftur: „Ég hef engan áhuga á að kaupa Séð & Heyrt“

Eiríkur Jónsson (64) segir að tími tímarita eins og Séð & heyrt sé liðinn. Eiríkur ætlar ekki að kaupa tímaritið, segist vera tilbúinn að kveðja það fyrir fullt og allt og telur lítið hægt að gera til þess að koma blaðinu til bjargar … aftur.

Á mbl.is í gærkvöldi kom fram að útgáfu­fé­lagið Birtíng­ur ætli að selja tímaritin Sag­an öll, Séð & heyrt, Nýtt líf og Júlía. Fyrirtækið endurskipuleggur nú rekstur sinn en allt að tíu starfsmönnum verður sagt upp.

Eiríkur Jónsson lét af störfum sem ritstjóri Séð & heyrt í vor eftir að Hreinn Loftsson, yfirmaður hans og eigandi Birtíngs, setti honum stólinn fyrir dyrnar; annað hvort hætti hann með vefsíðu sína Eiríkurjónsson.is og einbeitti sér alfarið að Séð & heyrt eða hætti hjá tímaritinu.

Eiríkur sagði í samtali við Vísi að blaðið hafi skánað undir hans stjórn, sala hafi aukist og lestur sömuleiðis. „Ég bjargaði þessu tímariti frá dauða meira að segja,“ sagði hann.

Í samtali við Nútímann segist Eiríkur ekki ætla að bjarga tímaritinu aftur. „Ég hef engan áhuga á að kaupa Séð & Heyrt — ég rek minn eigin fjölmiðil,“ segir hann og vísar í vef sinn.

Ég er tilbúinn að kveðja blaðið þó að það þýði að það hverfi á braut. Það er svo margt sem er að hverfa á braut þessa dagana; Samfylkingin, Séð & Heyrt og Framsóknarflokkurinn.

Eiríkur er öllum hnútum kunnugur í þessum bransa og hefur verið blaðamaður í áratugi. Hann ritstýrði Séð & heyrt frá 2007 til 201o og svo aftur frá 2014 þangað til í vor. Hann segir að með tilkomu frétta á internetinu sé mun erfiðara að halda uppi tímariti eins og Séð & Heyrt.

„Ég held að tími svona blaðs sé liðinn, því miður,“ segir hann. „Séð og Heyrt er internetið og internetið er Séð og Heyrt. Ég upplifði báða tímana— tímann fyrir internetið og tímann eftir það og ég veit samt ekki hvernig á að koma þessu blaði til bjargar.“

Auglýsing

læk

Instagram