Fannst þriggja mánaða á götunni í Bangkok, heimsótti barnaheimilið og sýndi frá því á Snapchat

Páll Thamrong Snorrason og Helgi Ómarsson heimsóttu í dag barnaheimilið þar sem Páll dvaldi fyrstu ár ævi sinnar. Hann fannst þriggja mánaða gamall á götu úti í Bangkok í Tælandi en Páll hafði verið skilinn eftir af foreldri eða foreldrum sínum.

Á heimilinu hitti Páll tvær konur sem vinna þar í dag og mundu þær vel eftir honum. Önnur þeirra átti erfitt með að halda aftur af tilfinningum sínum og grét í fanginu á honum.

Þegar vinirnir höfðu gengið um barnaheimilið, hitt fleira starfsfólk og rætt við börnin sem dvelja þar núna báru tilfinningarnar Pál ofurliði. Hann grét, þetta var allt svo ótrúlegt í hans huga. Páll og Helgi leyfðu fylgjendum sínum á Snapchat að fylgjast með ferðinni á barnaheimilið.

„Aðalmarkmið ferðarinnar var bara að ferðast með Helga vini mínum. Tveimur vikum áður en ég fór út hafði ég samband við Íslenska ættleiðingu og fékk upplýsingar um barnaheimilið sem ég var á fyrstu fjögur árin,“ segir Páll í samtali við Nútímann.

Hann segist lengi hafa langað að finna barnaheimilið, allt frá því að hann var mjög ungur. Páll á myndir af sjálfum sér frá því að foreldrar hans sóttu hann á barnaheimilið. „Ég man að ég skoðaði þær reglulega, svo þetta var stórt skref að taka í dag,“ segir hann.

Skrýtið að hugsa til þess að hann hafi verið einn af börnunum

Vinirnir byrjuðu daginn snemma. Þeir óku í tvær klukkustundir með leigubíl áður en bílstjórinn fann rétta heimilið. „Ég vissi sjálfur ekki alveg við hverju ég mátti búast en þær tilfinningar sem ég fann fyrir í nokkra daga áður var klessa af kvíða, stressi og spenningi. Sem er frekar skrýtin blanda,“ segir Páll.

Þegar á heimilið var komið helltust allskonar tilfinningar yfir hann og segist hann ekki alveg hafa kunnað að spila með þær. Fyrst tók starfsfólkið niður upplýsingar um hann og fann þar næst bók með ættleiðingarupplýsingum Páls ásamt undirskriftum foreldra hans. „Mér fannst það strax skrýtið og það gerði þetta allt saman raunverulegra,“ segir Páll.

„Eftir það fundum við tvær eldri konur, sem báðar þekktu mig. Það var einnig skrýtin tilfinning og enn og aftur vissi ég ekki hvernig ég átti að snúa mér,“ segir hann.

Alveg súrealísk tilhugsun að þetta séu konurnar sem ólu mig upp fyrstu fjögur ár lífs míns. Ein þeirra átti erfitt með að halda aftur af tilfinningunum og í rauninni grét bara í fanginu á mér,“ segir hann.

Páll og Helgi fengu því næst að heimsækja börnin sem dvelja á heimilinu. „Þau voru yndisleg en það var auðvitað skrýtið að hugsa til þess að ég var einn af þessum krökkum fyrir tuttugu árum. Allt var þetta stórkostlegt, yfirþyrmandi og hálf óraunveruleg upplifun. Ýmsar spurningar skjótast upp í kollinn eftir svona. Hvernig foreldri getur skilið þriggja mánaða barn eftir úti á götu í Bangkok,“ veltir Páll fyrir sér.

Páli líður ótrúlega vel eftir heimsóknina og segir að nokkur púsl hafi bæst í púsluspilið sem voru ekki til staðar áður. „Þetta gaf mér meira en ég hefði búist við og mun eflaust halda áfram að gefa næstu mánuði.“

Helgi segir í færslu á Facebook-síðu sinni að hann sé fullur þakklæti fyrir að hafa átt einstaka upplifun með besta vini sínum, að heimsækja barnaheimilið með honum. „Ég er fullur af kærleik, væmni og þakklæti. Bæði fyrir að hafa fengið að deila þessari reynslu með besta vini mínum, ásamt því að örlög Palla voru að flytjast til Íslands og gera líf vina sinna miklu, miklu betra.“

Páll og Helgi á Snapchat: thaiboywhiteboy

Auglýsing

læk

Instagram