Ferðamenn hryggir yfir öllu ruslinu á ferðamannastöðum hér á landi

Bandarísku hjónin David og Rachel McAfee eru á ferðalagi um Ísland. Þau eru hrifin af landinu og náttúrunni en hafa mætt miklu magni af rusli á ferð sinni. Þau hvetja aðra ferðamenn að ganga vel um landið og taka upp ruslið og skilja landið eftir í betra ástandi en áður.

David heldur úti bloggsíðu þar sem hann skrifar um upplifun þeirra hjóna en þau eru á ferðalagi um Ísland með vinafólki sínu. Í gær voru þau verið á ferðinni á Suðurlandi og skoðuðu meðal annars Skógarfoss, Reynisfjöru og heimsóttu Vík í Mýrdal.

„Því miður tókum við eftir að á öllum þremur stöðunum var rusl alls staðar,“ skrifar David og bætir við að sígarettustubba, plasthringi og annað rusl hafi verið að finna á víð og dreif.

Hann segir eiginkonu sína, Rachel, hafa ákveðið að taka upp rusl við Skógarfoss og geymt það í vösunum sínum þar sem þau voru ekki með poka með sér. Það leið ekki langur tími þar til vasar þeirra allra voru fullir af rusli en „heppilega“ fundu þau plastpoka í Reynisfjöru, sem annar ferðamaður hafði skilið eftir, og þau gátu notað til að flytja rusl úr fjörunni í ruslatunnu.

David segir þau hafa verið í Reynisfjöru í um það bil hálftíma og á þeim tíma hafi þau týnt nógu mikið af rusli til að filla plastpokan og rúmlega það.

Rachel deildi myndum frá ruslatínslunni á Facebook-síðunni sinni.

„Þetta er eina myndin af mér á Íslandi þar sem ég er ekki brosandi því þetta var mjög sorglegt,“ skrifaði Rachel og vísar til alls ruslsins sem varð á vegi hennar.

„Ef þú hyggst ferðast en ætlar ekki að taka upp ruslið eftir sjálfan þig, gerðu þá heiminum greiða og vertu heima í þínu eigin rusli.“

Auglýsing

læk

Instagram