Fyrsti atvinnubardagi Sunnu framundan: „Þetta er draumurinn minn og ég er að láta hann rætast“

Bardagakonan Sunna Davíðsdóttir mætir Ashely Greenway í Kansas City í Bandaríkjunum 23. september. Þetta er fyrsti atvinnubardagi Sunnu en hún er fyrsta íslenska konan sem gerist atvinnumaður í MMA.

Sunna gekk til liðs við Invicta Fighting Championships, sem er stórt bardagasamband í Bandaríkjunum, í apríl síðastliðnum. Hún varð þar með atvinnumaður í MMA, blönduðum bardagalistum, fyrst íslenskra kvenna.

Sjá einnig: Kristín Péturs fór í einkaþjálfun hjá hörðustu píu landsins, sjáðu myndbandið

Sunna segist vera himinlifandi nú þegar fyrsti atvinnubardaginn er framundan. „Ég er búin að vera að bíða eftir þessu í langan tíma og ég er tilbúin í þetta að öllu leyti,“ segir hún.

Ég hef ekki barist opinberlega síðan á Evrópumeistaramótinu sem fram fór í október í fyrra og þess vegna er mig farið að klæja í fingurna, eða öllu heldur hnúana!

Ashley Greenway á 12 áhugabardaga að baki, átta sigra og fjögur töp. Fyrsti atvinnubardaginn hennar fór fram í mars á þessu ári og hann vann hún eftir dómaraákvörðun. Grunnur Sunnu og Ashley er mjög sambærilegur. Þær eru báðar 31 árs gamlar, eru báðar með grunn úr Muay-Thai og eru báðar með fjólublátt belti í Brasilísku Jiu-Jitsu.

„Ég veit ekki mikið um andstæðing minn, enda hef ég aldrei lagt mikið upp úr því að vita mikið um mína andstæðinga,“ segir Sunna.

„Ég einbeiti mér fyrst og fremst að því að vera með sjálfa mig á hreinu. Ég hef aldrei verið í betra formi, enda hef ég varið öllum mínum tíma í að æfa og undirbúa mig.”

Talsverður munur er á MMA áhugamanna og atvinnumanna. Loturnar eru lengri, fimm mínútur í stað þriggja, og regluverkið er töluvert rýmra. Fleiri högg eru leyfileg og færri hlífar.

„Það sem ég er spenntust fyrir er sennilega það að ég megi loksins nota Muay-Thai grunninn minn almennilega. Reglurnar í atvinnumannabardögum henta bardagastílnum mínum miklu betur,“ segir Sunna.

„Ég hef verið þolinmóð að bíða eftir þessu tækifæri og ég get varla beðið eftir að fá að sýna heiminum hvers megnug ég er. Þar sem þetta er minn fyrsti atvinnubardagi þá er undirbúningurinn harðari og agaðari en ég hef vanist.

Annarsvegar þá er mataræðið mjög strangt og hinsvegar þá er æfingaplanið mjög þétt. Það er í raun ekkert sem ég geri annað en að æfa, borða og sofa, en mér finnst þetta æðislegt. Það er ekkert sem ég myndi frekar vilja gera. Þetta er draumurinn minn og ég er að láta hann rætast.”

Bardagi Sunnu verður sýndur í beinni útsendingu í UFC Fight Pass. Allir bardagar Invicta eru sýndir þar.

Auglýsing

læk

Instagram