Gerard Butler djammaði á Kaffibarnum

Skoski leik­ar­inn Ger­ard Butler er staddur hér á landi. Sást til hans í miðbæn­um í nótt þar sem hann sótti meðal ann­ars skemmti­staðinn Kaffi­bar­inn. Þetta kemur fram á Mbl.is.

Butler hef­ur leikið í mynd­um á borð við 300 og Beowulf. Það ætti ekki að koma á óvart að hann millilendi hér á leið sinni yfir hafið en var á dögunum staddur í Lundúnum. Butler hefur nefnilega sagt að Ísland sé einn af upp­á­halds­stöðunum sín­um:

Það er eitt­hvað við Ísland – harðneskja. Það er eitt­hvað afar frum­stætt í um­hverf­inu, eitt­hvað óút­skýr­an­legt sem hef­ur áhrif á mig þegar ég stend þar. Maður fer yfir jökla eða stend­ur á svartri sand­ströndu. Maður stend­ur á tindi eld­fjalls og það legg­ur gufu upp úr jörðinni í kring­um þig. Þarna eru hver­ir; maður sér þessa hluti hvergi ann­ars staðar. Og fólkið er mjög and­lega sinnað.

Þá er fræg sagan af því þegar hann var að leika í Beowulf og bað Guðna Ágústsson, þáverandi landbúnaðarráðherra, um samloku með skinku og osti.

„Út kom þá maður í jakkafötum og með bindi og ég taldi nánast öruggt að þetta væri framkvæmdastjóri hótelsins. Ég vatt mér upp að honum, spurði hvort hann gæti ekki reddað mér einhverju að borða, það mætti væri hvað sem er, bara samloka með skinku og osti. Ég var að deyja úr hungri, ég hefði getað torgað heilu hrossi,“ sagði Butler í viðtali um málið sem hann kallar eitt af vandræðalegri augnablikum lífs síns.

Butler segir að framleiðendur myndarinnar hafi strax komið að máli við sig og tilkynnt honum að þarna hefði hann verið að biðja landbúnaðarráðherra landsins um mat.

Auglýsing

læk

Instagram