Leikararnir Bergur Þór Ingólfsson og Þröstur Leó Gunnarsson birta grein í Fréttablaðinu í dag undir fyrirsögninni: „Í hvers konar samfélagi viljum við búa?“ Greinin hefur vakið mikla athygli en í henni hvetja þeir fólk til að hreyfa við hugsunarhætti sínum og hætta að setja ábyrgð á þolendur kynferðisbrota.
Lögmaðurinn Róbert Árni braut kynferðislega á dóttur Bergs þegar hún var barn en þeir eiga báðir tvær dætur sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. „Þeirri fimmtu var byrluð ólyfjan en henni komið undir læknishendur áður en frekari glæpir áttu sér stað,“ segir í greininni.
Fyrirfram héldum við að slík tölfræði væri ómöguleg. Í ofanálag hefur öðrum okkar ekki enn tekist að koma dætrum sínum yfir tvítugsaldurinn án þess að þær hafi verið beittar kynferðislegu ofbeldi. Í hvernig samfélagi viljum við búa?
Róbert Árni, eða Robert Downey eins og hann kallar sig í dag, fékk uppreist æru í september í fyrra og endurheimti lögmannsréttindi sínum á dögunum. Bergur Þór og Þröstur Leó gagnrýna þessa ákvörðun.
„Við höfum rekið okkur á að minnsta kosti í þrígang í máli Roberts Downey hingað til að ef Nýja stjórnarskráin hefði verið við lýði þá hefði atburðarásin verið önnur; samviska forsetans hefði ekki verið sett í vonda stöðu, upplýsingalögin hefðu verið opin en ekki lokuð og tillit tekið til verndar börnum hvað ákvarðanir varðar,“ skrifa þeir.
Þeir segjast ekki lengur geta áfellst sjálfa sig fyrir að hafa ekki verndað dætur sínar nógu vel. „Við getum ekki annað en reynt að hafa eins hátt og okkur er unnt þar til menningarlegur umsnúningur verður hjá yfirvaldinu og þjóðinni hvað þessi mál varðar. Það verður nefnilega hvorki gert með því að setja límmiða yfir glösin þeirra né skipa þeim að fara í síðari pils,“ skrifa þeir.
„Hreyfum við hugsunarhætti okkar. Hættum að setja ábyrgðina á þolendur. Krefjumst ábyrgðar af ráðamönnum. Siðmenning er að hugsa fyrst um hag þeirra sem höllum fæti standa. Í hvernig samfélagi viljum við búa? Samfélagi sem verndar börnin okkar og þau sem minna mega sín eða samfélagi þar sem þeir sem meira mega sín fara kæruleysislega sínu fram af hroka og yfirlæti? Samfélagi sem lokar á upplýsingagjöf eða samfélagi sem býður upp á upplýst gegnsæi? Við hvetjum feður og mæður þessa lands til að spyrna við fótum, hafa hátt og krefjast breytinga. Krefjumst réttláts þjóðfélags fyrir börnin okkar.“