Guðfinna sakar Jakob Bjarnar um að tala niður til sín í frétt á Vísi

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, lögmaður og borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, segir Jakob Bjarnar Grétarsson, blaðamann á Vísi, tala niður til sín og gera sér upp skoðun í frétt á Vísi í gær.

Umrædd frétt fjallar um að Vigdís Hauksdóttir, fráfarandi formaður fjárlaganefndar, furði sig á því að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hafi tjáð sig í kommentakerfum eftir blaðamannfundinn á Bessastöðum í gær og að Guðfinna sé henni sammála. Í fyrirsögn fréttarinnar eru þær kallaðar „Framsóknarfraukur“.

Í færslu á Facebook hafnar Guðfinna því að hafa tekið undir orð Vigdísar og segir að Jakob stundi svokallaða „smelludólablaðamennsku“ sem sé til þess fallin að selja og í leiðinni niðurlægja aðra.

„Í fyrirsögninni náði hann bæði að tala niður til mín með orðinu „Framsóknarfrauka“ og gera mér upp skoðun með því að segja að ég furðaði mig á forsetanum sem er alrangt. „Fréttina“ bjó hann til upp úr statusfærslu Vigdísar Hauksóttur á facebook og kommenti mínu þar við færsluna,“ segir hún.

Guðfinna bendir á að athugasemd sín hafi litið svona út: „Það er nú svolítið krúttlegt ef hann verður „virkur í athugasemdum“  

Hún segir að athugasemdin hafi ekki verið sett fram til að lýsa furðu sinni. „Heldur fannst mér sú mynd sem ég sá fyrir mér af forsetanum á Bessastöðum taka slaginn á kommentakerfinu bæði krúttleg og fyndin, þess vegna setti ég broskarl,“ segir hún.

Í færslu um málið á Facebook bendir Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi samstarfskona Guðfinnu í borgarstjórn, á að samkvæmt íslenskri orðabók sé frauka skilgreind svona: ungfrú, fröken (niðrandi).

„Vísi finnst greinilega ekkert athugavert við að tala um konur með þessum hætti. Mér finnst það,“ segir hún.

„Þetta, ásamt svo fjölmörgu öðru, er ástæðan fyrir því að konur taka síður þátt í pólitík en karlar og fyrir því að konur endast skemur í pólitík en karlar. Það er svo viðtekin venja að smána þær og niðurlægja á opinberum vettvangi að fólk tekur ekki einu sinni eftir því. Ég minnist þess ekki að hafa séð fyrirsögn um framsóknarfauska – og er viss um að slíkt myndi kalla á ansi hörð viðbrögð.“

Jakob segist í athugasemd á Facebook ekki vita til þess að frauka sé niðrandi. „Það er notað (augljóslega) til að ná fram hinni eftirsóknarverðu ofstuðlun sem er svo skemmtileg í blaðafyrirsögnum,“ segir hann.

„Ég get ekki séð að það sé oftúlkun að þú sért að samsinna vinkonu þinni; það að tala um virka í athugasemdum hefur hingað til verið notað í fremur neikvæðri merkingu. Auk þess sem þér hefur tekist að negla orðið „krúttlegt“ sem háðsyrði.“

Auglýsing

læk

Instagram