Hildur Ösp var í ofbeldissambandi í 18 ár: „Enn þann dag í dag finn ég fyrir áverkunum“

Hildur Ösp Þorsteinsdóttir segir frá ofbeldissambandi sem entist í tæplega 18 ár í myndbandi fyrir herferðina Þekktu rauðu ljósin. Hún segir sambandið hafa einkennst af miklu andlegu og líkamlegu ofbeldi þar sem hann varð alltaf að vera við stjórnina. Sjáðu myndbandið hér að neðan

„Hann var ekki ofbeldisfullur til að byrja með og bara mjög góður, örlátur og gat verið mjög skemmtilegur. Svo smám saman fór að bera á svonaskapofsaköstum þar sem hann kannski rauk upp án þess að ég hefði nokkra hugmynd af hverju.“

Fljótlega fór líf Hildar að snúast algjörlega um hann, að halda honum góðum og passa að gera hlutina rétt þannig að honum liði vel.

Nokkur atriði sitja enn mikið í Hildi, meðal annars þegar þau voru í vinnuferð í London og hann réðst á hana á hótelherbergi þeirra eftir að hún hafði neitað honum um kynlíf.

„Það fauk svo í hann að hann fór klofvega yfir mig og tók mig hálstaki og ég fann hvernig andardrátturinn var að fjara út. Þá fór ég að hugsa til barnanna minna og það var eitthvað sem gerðist innra með mér að ég náði að taka hnén upp á brjóstkassann og spyrna honum burt með hnjánum.“

“Ég var svo skelkuð að ég hringdi á hjálp niður í lobbý en þegar starfsmaðurinn kom stóð hann með steyttan hnefa bak við hurðina og ég var svo hrædd að ég afturkallaði aðstoðina. Enn þann dag í dag finn ég fyrir áverkunum.“

Hildur segir að konur eigi ekki að óttast það sem taki við eftir að þær fari úr ofbeldissambandi.

Herferðin Þekktu rauðu ljósin er svar Kvennaathvarfsins og Bjarkarhlíðar við síaukinni eftirspurn ungs fólk eftir aðstoð vegna ofbeldis í nánum samböndum. Umræðan um ofbeldi í nánum samböndum beinist oft að fólki sem hefur búið saman og ofbeldið átt sér stað innan veggja heimilisins en skortur er á efni sem beint er til fólks sem er að hefur nýhafið samband.

Herferðin miðar að því að minna á að ofbeldi birtist smátt og smátt í samböndum, að ýmis viðvörunarmerki eru oft undanfari ofbeldisins.  Vitundarvakningin felst í stuttum myndböndum þar sem nokkrar hugrakkar konur sem stigið hafa út úr ofbeldissamböndum líta til baka og ræða viðvörunarljósin sem birtust í sambandinu þó þær hafi ekki séð þau fyrr en of seint. Það er von okkar að þessi vitundarvakning auki skilning fólks á ofbeldi í nánum samböndum og hjálpi fólki að sjá rauðu ljósin áður en til ofbeldis kemur.

„Það er von okkar að þessi vitundarvakning auki skilning fólks á ofbeldi í nánum samböndum og hjálpi fólki að sjá rauðu ljósin áður en til ofbeldis kemur.”

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Rauðu ljósanna. Einnig er hægt að kynna sér úrlausnir hjá Bjarkarhlíð og Kvennaathvarfinu.

Auglýsing

læk

Instagram