Lögreglan leitar að Louise Soreda: Kom ein til landsins og á ekki flugmiða til baka

Louise Soreda, franskur ferðamaður sem lögreglan á Suðurnesjum lýsti eftir í morgun, kom hingað til lands með flugi 5. júlí og á ekki bókaðan miða til baka. Fjölskylda hennar hafði samband við lögreglu hér á landi þegar þau höfðu ekkert heyrt frá henni og ekki náð sambandi við hana.

Louise er fædd árið 1995. Síðast er vitað um ferðir hennar í flugstöðinni í Keflavík daginn sem hún kom til landsins en fréttinni fylgir mynd úr öryggismyndavél sem náðist af henni þar.

Að sögn lögreglu er talið að Louise sé með síma meðferðis. Nokkrar ábendingar hafa borist lögreglu í morgun eftir að lýst var eftir henni en ekki er vitað á þessari stundu hvort þær komi að gagni. Ekki er vitað hvert Louise ætlaði hér á landi eða hvað hún ætlaði að gera. Hún er ein á ferð.

Síðast er sást til hennar var hún klædd bláum gallabuxum, brúnum fjallgönguskóm og hvítri peysu. Þá hafði hún meðferðis stóran rauðan bakpoka ásamt upprúllaðri ljósgrárri dýnu, eins og sést á meðfylgjandi mynd.

Þau sem hafa upplýsingar um hvar Louise er niðurkomin, eða hafa séð hana, eru vinsamlegast beðin um að hafa samband við lögregluna á Suðurnesjum í síma 444 2200.

Auglýsing

læk

Instagram