Morgunblaðið freistar þess að heilla unga fólkið með daglegri hljóðskrá með fréttum og greinum

Hljóðskrá með fréttum og greinum Morgunblaðsins er á meðal þess sem útgáfufélagið Árvakur kynnir til sögunnar á morgun. Þá verða kynntar til sögunnar nýjungar á útvarpsstöðinni K100 sem eiga að sameina styrkleika útvarps og sjónvarps.

Þetta var tilkynnt á starfsmannafundi á Morgunblaðinu í Hádegismóum í dag. Ýmsar nýjungar voru í dag kynntar fyrir starfsfólki Árvakurs, sem gefur meðal annars út Morgunblaðið ásamt því að reka mbl.is og K100.

Á meðal þess sem verður kynnt til sögunnar í fyrramálið er hljóð-Moggi. Áskrifendur munu geta hlaðið niður um hálftíma hljóðskrá á morgnana og hlustað á helstu fréttir og greinar dagsins.

Heimildir Nútímans herma að á fundinum hafi verið vitnað í niðurstöður rannsóknar sem framkvæmd hafi verið fyrir Árvakur. Þar kemur meðal annars fram að ein af ástæðunum fyrir því að ungt fólk lesi ekki Morgunblaðið sé að það hafi ekki tíma til að fletta blaðinu. Var því þá velt upp á starfsmannafundinum að unga fólkið gæti hreinlega sótt blaðið á morgnana og hlustað á það í ræktinni.

Í október á síðasta ári keypti Árvakur rekstur útvarpsstöðvarinnar K100. Síðdegis á morgun verður haldin teiti í Hádegismóum þar sem nýjungar á K100 verða kynntar fyrir auglýsendum og öðrum útvöldum.

Í boðinu á Facebook kemur fram að um algera nýjung sé að ræða sem sameinar styrkleika útvarps og sjónvarps. „Árvakur hefur á síðustu mánuðum unnið að umbreytingu á útvarpsstöðinni K100 – FM 100,5. Í framhaldi af stefnumótun á dagskrá og yfirbragði stöðvarinnar kynnum við nýtt fólk, nýja tækni, nýjar fréttir í samstarfi við mbl.is og Morgunblaðið og umbyltingu á miðlun útvarps með samhliða beinni útsendingu í sjónvarpi,“ segir þar.

Jón Axel Ólafsson, sem hefur tekið þátt í vinnunni, birti í dag mynd á Facebook sem sýnir útsendingu úr hljóðveri K100. Heimildir Nútímans herma að bein sjónvarpsútsending verði úr hljóðveri K100 þegar þættir eru í gangi og fréttir á klukkustundarfresti. Í máli Haraldar Jóhannessen, framkvæmdastjóra Árvakurs, í dag kom fram að búnaðurinn sem keyrir útsendinga áfram hafi verið afar kostnaðarsamur.

Í athugasemd undir mynd Jóns Axels veltir útvarpsmaðurinn Máni Pétursson fyrir sér hvers konar nýjungar séu á ferðinni. „En hvað er að fara gerast? Er það eitthvað nýtt eða eitthvað sem við byrjuðum að gera fyrir fimm árum,“ segir hann og birtir tengil sem sýnir sjónvarpsupptöku af útvarpsþættinum Harmageddon.

Auglýsing

læk

Instagram