Ólafur Darri verður forsætisráðherra

Ólafur Darri Ólafsson fer með aðalhlutverk í nýrri þáttaröð, Ráðherranum, sem tekin verður upp á næsta ári. Íslenski kvikmyndavefurinn Klapptré greinir frá þessu en Ráðherrann er saga óhefðbundins stjórnmálamanns sem verður forsætisráðherra Íslands. Ákvarðanir forsætisráðherrans verða svo sífellt óvenjulegri eftir að hann tekur við embættinu og ku það hafa óforsjáanlegar afleiðingar í för með sér.

Sagafilm framleiðir þættina en þeir hafa verið í þróun þar innanhúss í nokkur ár. Leikkonan og leikstýran Nanna Kristín Magnúsdóttir og leikstjórinn Arnór Pálmi Arnarsson sjá um leikstjórn þáttaraðarinnar í sameiningu en tvíeykið er vel kunnugt kvikmynda- og sjónvarpsgerð. Nanna Kristín hefur prýtt leiksvið og sjónvarpsskjái landans um árabil og hlaut hún Edduverðlaun í flokki bestu stuttmyndar árið 2017, fyrir stuttmyndina sína Ungar. Arnór Pálmi hlaut Edduverðlaun sama ár fyrir gamanseríu sína Ligeglad, sem skartaði m.a. Helga Björns í stórskemmtilegu hlutverki sjálfs síns. Arnór Pálmi er einnig í hæfileikaríkum hópi þeirra sem sjá um Áramótaskaup þessa árs.

Handritaskrif eru í höndum Bjargar Magnúsdóttur, Jónasar Margeirs Ingólfssonar og Birkis Blæs Ingólfssonar og hefur RÚV tryggt sér sýningarréttinn á þáttaröðinni sem þegar hefur verið forseld til allra Norðurlandanna.

,,Við Nanna höfum unnið mikið saman síðustu ár en þetta er í fyrsta sinn sem við leikstýrum verkefni saman. Þegar við lásum handritin þá vorum við eiginlega seld. Það er frábært að fá Ólaf Darra í hlutverk forsætisráðherra. Það eru fáir leikarar sem eigna sér hlutverk jafnvel og Darri,“ segir Arnór Pálmi í samtali við Klapptré. ,,Undirbúningur Ráðherrans hefur verið skemmtilegt sköpunarferli og ég er afar spennt fyrir framhaldinu. Ég og Arnór erum ólíkir leikstjórar en myndum traust teymi,“ bætir Nanna Kristín við.

Tökur á þáttaröðinni Ráðherrann fara fram næsta vor og verður sögusviðið Reykjavík.

Auglýsing

læk

Instagram