Páll Valur hættir í Bjartri framtíð en segir ekki skilið við húðflúrið: „Flokkurinn á stað í hjarta mínu“

Páll Valur Björnsson, fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar, ætlar ekki að láta fjarlægja húðflúr með merki flokksins þó að hann ætli nú að segja skilið við Bjarta framtíð. Hann segir í samtali við Nútímann að Björt framtíð hafi verið stórkostlegur kafi í lífi hans en hann eigi því miður ekki lengur samleið með flokknum.

Fréttavefurinn Miðjan greindi frá því að Páll Valur hefði tilkynnt flokksfélögum sínum að hann ætlaði að segja sig úr flokknum.

Sjá einnig: Þingmaður lét flúra flokkinn á sig í Hollywood

Eitt af því fyrsta sem Nútíminn fjallaði um eftir að hann fór í loftið í ágúst árið 2014 var húðflúrið sem Páll Valur fékk sér í Hollywood eftir að hann var kosinn á þing fyrir flokkinn.

„Það verður bara áfram á sínum stað. Björt framtíð var stórkostlegur kafli í mínu lífi og fyrir svona mann eins og mig, sem hafði verið verkamaður allt mitt líf, var mjög merkilegt að verða þingmaður. Ég tók þingmannsstarfið mjög alvarlega, þetta var eitt mest lærdómsríkasta rímabilið í lífi mínu,“ segir Páll Valur í samtali við Nútímann.

Þetta er ekki eina flúrið sem minnir hann á gamla tíma og afrek í lífinu. Hann er meðal annars með skammstöfunina SÁÁ en hann fór í áfengismeðferð hjá samtökunum, nafn Vopnafjarðar þar sem hann ólst upp í bænum, mynd af Alþingishúsinu til minningar um starfið sem þingmaður, æðruleysisbænina og merki ungmannafélagsins Einherja.

Páll Valur segir að tíminn verði að leiða í ljós hvort hann kom til með að skrá sig í annan stjórnmálaflokk. Ef til þess kemur verður sá flokkur að vera vinstra megin við miðju.

„Ég er félagshyggjumaður, jafnaðarmaður í mér. Ég vonaðist til þess að Björt framtíð yrði hið nýja sterka afl í miðjunni. Það að stíga upp í samstarf við þessa tvo flokka [Sjálfstæðisflokk og Viðreisn], það hugnaðist mér ekki,“ segir Páll Valur.

Hann segist að lokum vera maður friðar og að hann beri engan kala til Bjartrar framtíðar. „Flokkurinn á stað í hjarta mínu en ég á ekki samleið með þeim lengur,“ segir Páll Valur að lokum.

Auglýsing

læk

Instagram