Reynir sýndi frá fæðingu dóttur sinnar í beinni útsendingu á Snapchat: „Fólk bara hágrét með okkur”

Auglýsing

Reynir Bergmann Reynisson er einn af vinsælustu Íslendingunum á samfélagsmiðlinum Snapchat. Reynir vakti mikla athygli í vikunni þegar að hann sýndi frá fæðingu dóttur sinnar í beinni útsendingu frá Snapchat. Hátt í 30 þúsund manns hafa nú horft á fæðinguna.

Reynir er með þrettán þúsund fylgjendur á Snapchat og hann segir í samtali við Nútímann að hann hafi aldrei efast um að sýna frá fæðingunni í gegnum forritið.

„Þegar maður er svona stór snappari þá leyfir maður fólki að fylgjast með. Ég hef leyft fólki að fylgjast með lífi mínu mjög náið og þetta er bara hluti af því,” segir Reynir.

Reynir er fæddur árið 1980 líkt og notendanafn hans á Snapchat, Reynir1980, gefur til kynna. Hann ólst upp í Reykjavík en árið 2013 flutti hann á Selfoss þar sem hann býr ásamt konu sinni og börnum. Hann segir að konan hans hafi að sjálfsögðu verið til í þetta með honum en hún hafi ekki viljað sýna klofið.

Auglýsing

„Maður veit aldrei hvaða sjúku pervertar eru þarna úti. Af þrettán þúsund manns geta alveg leynst einhver nokkur ógeð.”

Hátt í 30 þúsund manns horfðu á fæðinguna í gegnum Snapchat og Reynir segir að viðbrögðin hafi komið honum svolítið á óvart.

„Ég bjóst ekki við þessu, maður hefur oft verið að flippa eitthvað en þetta sló öll met. Ég hef heyrt að þetta sé með eitt mesta áhorf af öllum snöppum hér á Íslandi. Við vorum að fá skilaboð víðsvegar úr heiminum og ég veit að heilu vinnustaðirnir voru að horfa á þetta saman,” segir Reynir.

Fólk bara hágrét með okkur og þetta var alveg yndislegt

Reynir byrjaði að snappa fyrir um tveimur árum og snappið hans óx hratt. Hann segist sýna fólki hvernig venjulegt heimilislíf er og að hann máli ekki neina glansmynd af lífi sínu.

„Ég sýni bara frá mínu lífi, ekki frá því hvernig fólk vill að það sé. Það er ekkert kjaftæði, ég ligg ekkert á mínum skoðunum og segi það sem aðrir þora ekki að segja og tala ekki í kringum hlutina. Ég er óvirkur alkóhólisti og það vakti mikla athygli um daginn þegar ég opnaði mig um það, þá voru hátt í 20 þúsund manns sem fylgdust með. Annars er þetta nú oft á léttu nótunum, ég geri oft skemmtilega símahrekki og hef gaman.”

Ef þú hefur áhuga á því að fylgjast með Reyni getur þú bætt honum við á Snapchat undir notendanafninu Reynir1980. Reynir mun sýna aftur frá fæðingunni á Snapchat á næstu dögum fyrir þá sem misstu af.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram