Risasamningur Tulipop sem vinnur að nýrri sjónvarpsþáttaröð

Íslenska hönnunarfyrirtækið Tulipop vinnur nú að framleiðslu stórrar sjónvarpsþáttaraðar byggðar á ævintýraheimi fyrirtækisins og persónum.  Tulipop hefur samið við alþjóðlega fyrirtækið Zodiak Kids um framleiðslu þáttanna sem byggðir verða á hinum íslenska Tulipop ævintýraheimi.

Framleiddir verða 52 þættir sem eru 11 mínútna langir. Áætlaður framleiðslukostnaður er um 700 milljónir króna en Zodiak Kids mun sjá um alþjóðlega sölu og dreifingu á þáttunum.

„Vinnan við þróun þessarar sjónvarpsseríu hófst fyrir 18 mánuðum en þá fengum við til liðs við okkur sterkan hóp reynslubolta í teiknimyndabransanum til að þróa handrit og búa til stuttmynd sem sýnir útlitið sem við viljum hafa á seríunni. Við kynntum verkefnið á Cartoon Forum í Toulouse í Frakklandi í september í fyrra og á MIP Junior í Cannes í október sem það fékk frábærar viðtökur og í kjölfarið hófust viðræður við aðila sem lýstu yfir áhuga á samstarfi. Eftir að hafa rætt við marga mögulega meðframleiðendur þá leist okkur best á Zodiak. Fyrirtækið deilir okkar sýn á hvernig sjónvarpsserían á að vera auk þess sem það er traust og stórt fyrirtæki sem hefur burði til búa til hágæðasjónvarpsseríu og koma henni í sýningu um allan heim. Zodiak er mjög virt fyrirtæki í þessum geira og af því fer gott orð sem skiptir miklu máli,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Tulipop, í fréttatilkynningu.

Tulipop hefur framleitt tíu stutta teiknimyndaþætti sem hafa verið í sýningu á RÚV og eru einnig aðgengilegir á Youtube. Þættirnir eru einungis tvær og hálf mínúta. Helga segir að stefnt sé að sölu á sjónvarpsseríunni um allan heim og á mörgum tungumálum.

Auglýsing

læk

Instagram