Skráði „Húh!“ sem orðmerki hjá einkaleyfastofu fyrir tveimur árum: Hugleikur fær ekki að merkja boli

„Húh!“ – hið heimsfræga hróp úr víkingaklappinu – var skráð sem orðmerki í september árið 2016. Skráningin gildir í áratug og á meðan hefur Gunnar Þór Andrésson, skráður eigandi orðmerkisins, einkaleyfi á að merkja fatnað og drykki með þessu orði.

Hugleikur Dagsson vakti athygli á málinu í dag í færslu á Facebook-síðu sinni í dag. Þar sagði Hugleikur að eigandi orðmerkisins „Húh!“ hafi haft samband við sig vegna bols sem hann teiknaði árið 2016 og kallast „HÚ!“ og sýndi mann taka víkingaklappið. „[Hann] tjáði okkur að hann ætti orðið „HÚH!“ og aðeins hann mætti prenta það á boli. Þetta kom okkur á óvart,“ segir Hugleikur.

Í fyrsta lagi vissum við ekki að það væri hægt að eiga þennan óeiginlega sándeffekt. Við héldum að allir ættu þetta hljóð/orð/hróp. Í öðru lagi hélt ég að við hefðum sjálf stolið víkingaklappinu frá Skotlandi eins og almennilegir víkingar.

Hugleikur bendir einnig á að það standi ekki „Húh!“ á bolnum hans heldur „Hú!“ sem hann lítur svo á að sé íslenskari stafsetning en skrásetta orðmerkið þar sem íslensk orð endi ekki á hái.

„Þess vegna ákváðum við að reyna að kaupa réttinn á HÚ! og deila þeim rétti með þjóðinni. Því kommon, það er ekki hægt að eiga HÚ! frekar en það sé hægt að eiga fólk eða kveikjara,“ segir Hugleikur léttur.

„En þá tjáir einkaleyfastofa okkur að HÚH! og HÚ! sé sama orðið. Þannig að Grinch á bæði HÚH! og HÚ!. Og við megum ekki prenta þessa mynd á boli. Því bara hann má. Því að hann sagði pant ég.“

Hugleikur segist ekki skilja af hverju Gunnar, eigandi orðmerkisins, sé með vesen. „Mitt HÚ! þarf ekki að trufla hans HÚH!. Við ættum öll að geta HÚ!að saman. Er það ekki það sem HÚ(H)! gengur útá?“

Hugleikur hyggst því selja bolinu sem eru merktir „Hú!“ á vefsíðu sinni og gefa helming ágóðans til Krabbameinsfélags Íslands.

Ekki náðist í Gunnar Þór Andrésson við gerð fréttarinnar.

How The Grinch stole víkingaklappið.Þessa teikningu, sem kallast einfaldlega “HÚ!”, teiknaði ég sumarið 2016. Stuttu…

Posted by Hugleikur Dagsson on Föstudagur, 23. mars 2018

Auglýsing

læk

Instagram