Skráður í sambúð með konu sem hann hefur aldrei hitt: „Mamma var þvílíkt ánægð með mig“

[the_ad_group id="3076"]

Hörður Guðmundsson fékk tilkynningu í dag um að hann og Sigrún Haraldsdóttir hefðu verið skráð í sambúð. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema vegna þess að Hörður og Sigrún eru ekki par. Ekki nóg með það, þá þekkjast þau ekki neitt og hafa raunar aldrei hist.

Um mistök hjá Þjóðskrá var að ræða en Hörður er alnafni raunverulegs sambýlismanns Sigrúnar. Þau fluttu nýlega aftur til landsins og skráðu sig í sambúð en Hörður, nafni Harðar, fékk tilkynninguna senda í pósti í dag.

„Ég opnaði emailið mitt og sá bara: þú ert skráður í sambúð,“ segir Hörður steinhissa í samtali við Nútímann. Hann sagði þessar óvæntu fréttir á Facebook-síðu sinni og sló þeim upp í létt grín. „Ég sem hélt að dagurinn yrði ekki betri. Nú hef ég verið skráður í sambúð með Sigrúnu Haraldsdóttur. Ég gæti ekki verið hamingjusamari, fyrir utan það að ég hef ekki enn fengið að kynnast henni.“

Þá óskaði hann eftir því að fá lyklana af íbúð þeirra afhenta.

[the_ad_group id="3077"]

Hörður játar að það sé vissulega til eftirbreytni að ríkið finni handa honum sambýliskonu. Og það á föstudegi. „Ég hélt fyrst að þetta væri svona eins og grænakorts-lottóið, eða að einhverjir algóriðmar hjá Þjóðskrá hefðu parað mig við konu í þeirra gagnagrunni,“ segir hann.

Mamma var þvílíkt ánægð með mig og ég var mjög þakklátur að fá allan pakkann og það í tölvupósti!

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem kerfið ruglar nöfnunum saman. „Ég hef áður fengið rafmagnsreikning sem var stílaður á hann en for óvart til mín — ég hef samt aldrei hitt þennan nafna minn,“ segir Hörður léttur.

Sigrún Haraldsdóttir, ekki sambýliskona Harðar Guðmundssonar heldur Harðar Guðmundssonar, segir í samtali við Nútímann að mistökin hafi lífgað upp á daginn. „Þjóðskrá vill meina að þetta sé bara netfangsvilla. Veit ekki hvar hún á sér stað. En þetta gerði daginn svo sannarlega skemmtilegri!“

Auglýsing

læk

Instagram