Stjórnarmaður Landssamtaka hjólreiðamanna sakar lögreglu um að ala á fordómum gagnvart hjólreiðafólki

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greindi í gær frá því á Facebook síðu sinni að margar kvartanir hefðu borist vegna hjólreiðafólks í sumar. Páll Guðjónsson, stjórnarmaður Landssamtaka hjólreiðamanna, segir færslu lögreglunnar ala á fordómum gegn hjólreiðafólki. Þetta kemur fram á Vísi.is.

„Ábendingar eða kvartanir um reiðhjólafólk sem fer ógætilega hafa borist frá vegfarendum í öllum sveitarfélögum í umdæminu og segir það sína sögu. Þeir sem kvarta undan hjólreiðamönnum segja þá m.a. glannalega og hjóla í veg fyrir aðra vegfarendur, ýmist á akbrautum eða göngustígum,” segir í tilkynningu lögreglu í gær.

Sjá einnig: Kvartað undan reiðhjólafólki í borginni

Páll Guðjónsson segir í samtali við Vísi að þessi skrif séu algjörlega misheppnuð. Hann segir að þessi „samfélagsmiðlastjarna” lögreglunnar þurfi að fara í þjálfun í mannlegum samskiptum. Verið sé að ala á fordómum gagnvart hóp með því að endurtaka svona slúður.

Páll segir lögregluna vera að endurtaka fullyrðingar frá fólki sem hringi daglega. Fullyrðingarnar séu ekki endilega sannar. Auknar hjólreiðar geti verið lausn á ýmsum vandamálum og slæmt sé ef lögregla ali á fordómum gegn þeim.

Auglýsing

læk

Instagram