Vigdís ræktar sambandið við fjölskyldu og vini: „Þingmannsstarfið var orðið bull, kjaftæði og firra“

Vigdís Hauksdóttir er ekki búin að ákveða hvað hún tekur sér fyrir hendur nú þegar hún hefur lokið störfum á Alþingi. Hún segist hafa verið komin með nóg af þingmannsstarfinu enda hafi það verið orðið algjört bull, kjaftæði og firra.

Sjá einnig: Vigdís Hauksdóttir hættir á þingi: „Ég er stolt af verkum mínum á Alþingi“

Vigdís hefur verið ein umdeildasta þingkona landsins um árabil en hún var formaður fjárlaganefndar í fráfarandi ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins. Í samtali við Nútímann segir hún að nú bíði langur listi af verkefnum sem hún kom ekki í verk þessi sjö og hálft ár sem hún sat á þingi.

Hún segist í samtali við Nútímann ætla ákveða hvað hún tekur sér fyrir hendur á snemma á næsta ári. „Það mun að öllum líkindum tengjast lögfræðinni en ég opinbera það þegar ég tel það viðeigandi,“ segir Vigdís en næst á dagskrá segir hún vera að rækta sambandið vini, kunningja og fjölskyldu.

„Ég flutti fyrir ekki svo löngu og hef ekkert komist að taka til í húsinu og gera það sem þarf eftir flutninga. Þetta er svona það sem er fyrst á dagskrá hjá mér í nóvember og desember,“ segir hún.

Ég er með mörg járn í eldinum og er mjög hamingjusöm með þetta allt saman. Ég tók þá ákvörðun að hætta í byrjun ágúst og hef ég verið að bíða eftir að þingið klárist.

Hún segir að mikið þurfi að breytast hjá sér ætli hún að taka stefnuna aftur á þing þar sem hún var komin með nóg af þingmannsstarfinu. „Ég ætla ekki aftur eins og staðan er í dag,“ segir hún hreinskilin.

„Ég var komin með algerlega nóg af þessu — og þá fyrst og fremst þingmannsstarfinu. Það var orðið algjört bull, kjaftæði og firra. Ekkert komst í gegn og það var ekki hægt að breyta kerfinu á neinn hátt. Því ákvað ég að loka þeirri hurð og opna 24 aðra glugga.“

Vigdís hyggst ekki snúa sér alfarið að blómaskreytingum á ný þó hún taki þátt í jólaskreytingum á vegum Blómavals í ár eins og fyrri ár. „Ég var fyrsti Íslandsmeistarinn í blómaskreytingum og hef verið að fá mörg boð um að taka þátt í hinum ýmsu skreytingakvöldum síðan,“ segir hún.

Og þrátt fyrir að vera hætt á þingi segist Vigdís alls ekki vera hætt á Facebook en það vekur jafnan mikla athygli þegar hún tjáir sig þar. Hún segir Facebook henta sér mun betur en samfélagsmiðlar á borð við Twitter og Snapchat.

„Ég mun alls ekki hætta að koma skoðun minni á framfæri á Facebook,“ segir Vigdís. „Mögulega skipti ég mér í minna mæli af pólitík það og fer meira út í dægurmálin. Facebook er minn fjölmiðill og sterkt tæki fyrir fólk í pólitík til að koma skoðunum sínum á framfæri.“

Auglýsing

læk

Instagram