Vísir lokaði á athugasemdir við frétt um Noru Mørk eftir að lesendur vísuðu á nektarmyndir af henni

Vefmiðillinn Vísir.is lokaði fyrir athugasemdur við frétt um norsku handboltakonuna Noru Mørk eftir að lesendur birtu slóð á nektarmyndir sem fjallað er um í fréttinni.

Nora Mørk sagði frá því í lok síðasta árs að myndum hafi verið stolið úr síma hennar og að þjófarnir hafi dreift myndunum á netinu. Hún komst svo að því að myndirnar höfðu verið í dreifingu innan norska karlalandsliðsins og velti í kjölfarið fyrir sér að hætta að gefa á kost á sér í landsliðið. Þá gagnrýndi hún norska handboltasambandið harðlega, sagði það hafa vitað af dreifingu myndanna innan landsliðsins og reynt að hylma yfir málið.

Ásta Sigrún Magnúsdóttir upplýsingafulltrúi bendir á þetta á Twitter og segir Noru vera að taka einn erfiðasta slag sem nokkur getur ímyndað sér. „Og íslenskir aumingjar taka sig til og setja link á myndirnar. Hvernig verður fólk svona að innan?“

Norska dagblaðið Verdens Gang segir frá því að myndirnar af Noru hafi birst í fjölmiðlum í Austur-Evrópu. Lögmaður Noru vinnur að því að fjarlægja myndirnar. „Enginn fjölmiðill sem tekur sig alvarlega vill brjóta lög,“ sagði hann í yfirlýsingu sem birtist í VG.

Að gefnu tilefni verður ekki opið fyrir athugasemdir undir þessari frétt.

Auglýsing

læk

Instagram