Bendir þetta bros til þess að Sigurður Ingi ætli í formannsframboð gegn Sigmundi Davíð?

Svo virðist sem Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra útiloki ekki að bjóða sig fram á móti sitjandi formanni Framsóknarflokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Í viðtali við Snærós Sindradóttur á Fundi fólksins í gær sagðist hann aldrei hafa útilokað neitt.

Þá ætti áhugafólk um líkamstjáningu að rýna í bros Sigurðar Inga þegar Snærós spurði hvort hann ætli að bjóða sig fram til formanns. Horfðu á myndbandið hér fyrir ofan.

Sjá einnig: Augnablikið sem Ásmundur Einar fattar að Sigurður Ingi er forsætisráðherra, sjáðu myndbandið

Vangaveltur hafa verið um hvort Sigurður ætli að sækjast eftir formannsstólnum. Sjálfur hefur hann sagt að hann muni ekki bjóða sig fram gegn sitjandi formanni. Þetta sagði hann meðal annars í viðtali á Hringbraut fyrir mánuði.

Snærós spurði Sigurð Inga um málið á Fundi fólksins í gær og virðist Sigurður Ingi nú opna á að framboð gegn Sigmundi Davíð sé mögulegt.

„Ætlar þú að bjóða þig fram til formanns?“ spurði Snærós Sigurð Inga. Forsætisráðherra brosti og hélt áfram að ræða flokksþingið.

„Þetta verður nú ekki fyrr en í september, október og það stundum sagt að vika sé langur tími í pólitík og ég hef bara sagt að ég hef tekið að mér þau verkefni sem Framsóknarmenn fela mér og við skulum bara sjá til með það,“ svaraði hann.

„Þú útilokar ekki að bjóða þig fram til formanns,“ spurði Snærós þá. „Ég hef aldrei útilokað eitt né neitt. Ég hef ítrekað það að við erum með sitjandi stjórn,“ svaraði Sigurður Ingi.

Líkt og mbl.is greindi frá í síðustu viku mun Framsóknarflokkurinn boða til flokksþings fyrir kosningar en þar verður meðal annars kosið um formannsembætti flokksins.

Óvissa hefur ríkt um stöðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknar, eftir afsögn sem forsætisráðherra í apríl. Hann boðaði endurkomu sína í lok júlí en skömmu síðar sagði Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, í þættinum Sprengisandi að starfið á Alþingi hefði gengið vel í fjarveru hans.

Sigmundur Davíð sækist eftir fyrsta sæti í próf­kjöri Fram­sókn­ar­flokks­ins í Norðaust­ur­kjör­dæmi fyr­ir alþings­kosn­ing­arn­ar í haust. Þrír félagar hans í flokknum sækjast einnig eftir fyrsta sætinu, þau Höskuldur Þórhallsson, Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir.

Nútíminn hafði samband við Benedikt Sigurðsson, aðstoðarmann forsætisráðherra og óskaði eftir viðbrögðum frá Sigurði Inga. Benedikt sagðist vera kominn heim, væri að fara að halda barnaafmæli og væri því ekki í aðstöðu til að kanna málið fyrir blaðamann. Ekki náðist í Sigurð Inga við vinnslu fréttarinnar.

Auglýsing

læk

Instagram