Guðný María slær í gegn með lagið Okkar okkar páska: „Vissi alltaf að ég hefði þennan hæfileika“

Auglýsing

Guðný María Arnþórsdóttir, söngkona sendi nýverið frá sér lagið Okkar okkar páska. Lagið sem Guðný semur, útsetur og syngur sjálf hefur heldur betur slegið í gegn en þegar þessi frétt er skrifuð hafa yfir 16 þúsund manns hlustað á lagið og horft á myndbandið. Sjáðu myndbandið í spilaranum hér að ofan.

Vinsældir lagsins komu Guðný ekkert endilega á óvart. „Ég er nú bara sveitastelpa úr Þingeyjarsveit en maður veit aldrei hvaða tónlist nær til fólks. Þetta lag er bæði einfalt og grípandi og fólk er fljótt að læra það,“ segir Guðný í samtali við Nútímann.

Guðný hefur gengið með þann draum lengi að gefa út tónlist og hóf fyrr í vetur að læra lagasmíði við FÍH. „Það gengur rosalega vel og ég hef lært alveg heilmikið. Ég vissi alltaf að ég hefði þennan hæfileika og það er svakalega gaman að geta samið og gefið út tónlist,“ segir hún.

Guðný hefur fengið rosalega sterk og góð viðbrögð við páskalaginu. „Margir hafa hrósað mér fyrir lagið sem er bara dásamlegt,“ segir Guðný.

Ég fór á ball með Stjórninni um helgina þar sem fólk kallaði mig páskakonuna

Auglýsing

Þetta er fyrsta páskalag Guðnýjar en áður hefur hún sent frá sér lögin, Niðdimm er nóttin, Dansa við mig og jólalagið Það eru jól. Hún er rétt að byrja. „Ég er búin að semja sex önnur lög sem eru væntanleg. Það eru ofboðslega spennandi tímar framundan,“ segir hún.

Guðný hefur lítið komið fram opinberlega en segist meira en tilbúin til þess. „Ég er til í allt og fólk má endilega hafa samband við mig ef það vill fá mig til að koma fram og spila,“ segir Guðný að lokum.

Auglýsing

læk

Instagram