Örskýring: Banki sem er ekki lengur til fær lögbann á umfjöllun Stundarinnar um Bjarna Ben

Um hvað snýst málið?

Lögbann hefur verið sett á frekari fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík Media upp úr gögnum innan úr Glitni. Stundin hefur undanfarna daga birt fréttir upp úr gögnunum sem fjalla um viðskipti Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra dagana fyrir hrun.

Hvað er búið að gerast?

Glitnir hrundi með bankakerfinu á Íslandi í október árið 2008.

Stundin hóf að fjalla um gögnin innan úr Glitni í samstarfi við Rekjavík Media og The Guardian í byrjun október. Umfjöllunin hefur snúið að viðskiptum Bjarna Bendiktssonar, Benedikts Sveinssonar, föður Bjarna, og Einar Sveinsson, föðurbróður hans.

Á meðal þess sem fjallað hefur verið um er 50 milljóna króna kúlulánaskuld sem Bjarni losnaði við í aðdraganda hrunsins og skuld vegna áhættuviðskipta sem faðir Bjarna greiddi upp fyrir hann.

Þrotabú bankans krafðist lögbanns á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík Media sem byggður á gögnum sem lekið var til breska dagblaðsins The Guardian. Sýslumaður féllst á bannið í gær og nú má því ekki birta fleiri fréttir úr gögnunum.

Í tilkynningu frá þrotabúi Glitnis kemur fram að lögbannskrafan byggi á því að ástæða hafi verið til þess að ætla að viðkvæm gögn um þúsundir viðskiptavina væru í höndum Stundarinnar.

Á meðal þeirra sem hafa fordæmt lögbannið eru Blaðamannafélag Íslands og Samtökin Gagnsæi, sem segja að frjáls fjölmiðlun sé ein af helstu vörnunum gegn spillingu.

Hvað gerist næst?

Jón Trausti Reynisson, ritstjóri Stundarinnar, segir að miðlarnir hafi engin tækifæri til að snúa þessari ákvörðun fyrr en eftir nokkrar vikur.

Einar Gautur Steingrímsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi slitastjórnarmaður í Glitni, segir að lögbannið standist ekki lög. Hann telur að lögbannið verði ekki staðfest þar sem það sé of víðtækt.

„Það er ekki nóg að vísa í bankaleynd. Það er ekki nóg að segja að gögnin séu stolin. Það skiptir ekki máli hvort það er bankaleynd eða gögn eru stolin ef fjölmiðill er kominn með þau undir hendur frá heimildarmanni, þá má hann ekki gefa upp nafnið á heimildarmanni og hann má fjalla um þau ef efnið á erindi við almenning,“ sagði Einar Gautur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram