Örskýring: Formaður SÍF rekinn eftir umdeilda blaðagrein

Um hvað snýst málið?

Skoðanapistill sem Davíð Snær Jónsson, þáverandi formaður Sambands íslenskra framhaldsskólanema, skrifaði á Vísi.is vakti mikil viðbrögð á dögunum. Í greininni talaði Davíð um kynjafræði sem skyldufag í framhaldsskólum og líkti henni við „marxísk fræði“.

Hvað er búið að gerast?

Eftir að greinin birtist í síðustu viku benti fólk á að Davíð væri að tala gegn ályktun sem unnin hafi verið af fulltrúum á sambandsþingi SÍF. Fyrrum formenn sambandsins gagnrýndu skrif hans og sögðu að hann væri að misnota embætti sitt til þess að koma persónulegum skoðunum á framfæri.

Í gær var Davíð rekinn úr stjórn SÍF. Í fréttatilkynningu SÍF er Davíð sagður hafa látið birta greinina þvert á ákvörðun framkvæmdastjórnar. Þá sé það einnig brottrekstrarsök að beita sér gegn stefnu sambandsins með þeim hætti sem Davíð gerði.

Davíð Snær segir að brottvísunin hafi komið honum á óvart og að öfgafull viðbrögð stjórnarinnar valdi honum áhyggjum. Hann hafi boðað til stjórnarfundar þegar honum varð ljóst að óánægju gætti um skrif hans. Af þeim fundi varð ekki og meirihluti stjórnar ákvað að víkja honum úr formennsku. Gjaldkeri stjórnar SÍF, Einar Freyr Bergsson, valdi einn stjórnarmeðlima að skrifa ekki undir brottvísun Davíðs.

Hvað gerist næst?

Varaformaður félagsins, Einar Hrafn Árnason tekur við störfum formanns til loka aðalþings SÍF sem fer fram dagana 8. og 9. september næstkomandi.

Auglýsing

læk

Instagram