Jón Baldvin stefnir Aldísi dóttur sinni, RÚV og Sigmari Guðmundssyni fyrir meiðyrði

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og sendiherra, hefur stefnt Aldísi Schram dóttur sinni meiðyrði. Þá hefur hann einnig stefnt Sigmari Guðmundssyni fréttamanni og RÚV en Aldís var í viðtali hjá Sigmari og Helga Seljan í  í Morgunútvarpi Rásar 2  í janúar síðastliðinn. Þetta kemur fram á vef Stundarinnar í dag. 

Sjá einnig: Aldís Schram segir frá því hvernig Jón Baldvin misnotaði aðstöðu sína í áhrifaríku viðtali: „Það er hetja að tala núna“

Í stefnunni eru tiltekin á annan tug ummæla Aldísar úr viðtalinu og fern ummæli Sigmars. Helga Seljan er ekki stefnt vegna viðtalsins. Vilhjálmur Vilhjálmsson, lögmaður, sendi stefnuna sem barst í byrjun vikunnar.

Viðtalið vakti mikla athygli í upphafi árs en þar sagði Aldís að Jón Baldvin hafi misnotað aðstöðu sína sem sendiherra þegar hann óskaði eftir því að hún yrði nauðungarvistuð á geðdeild.

Aldís hefur lengi haldið því fram að Jón Baldvin hafi brotið kynferðislega gegn henni og fjölda kvenna en hefur ávallt verið sögð geðveikt af fjölskyldu sinni og að frásagnir hennar séu ekki trúanlegar.

Sjá einnig: Fjórar konur segja frá kynferðisáreitni Jóns Baldvins

Sjö konur stigu fram opinberlega undir nafni og sökuðu Jón Baldvin um kynferðislega áreitni en alls hafa 23 konur birt sögur sínar af honum á vefsíðu. Einnig var stofnaður sérstakur MeToo hópur kvennanna á Facebook þar sem sögur halda áfram að berast. Jón Baldvin hefur ávallt haldið því fram að sögurnar eigi allar rætur að rekja til veikinda Aldísar dóttur sinnar.

Auglýsing

læk

Instagram